Óska eftir gömlum ljósmyndum af Íslendingum

Mynd: Skjáskot / RÚV

Óska eftir gömlum ljósmyndum af Íslendingum

14.04.2021 - 13:32

Höfundar

Ættfræðiáhugamaðurinn Friðrik Skúlason er einn af þeim sem standa að baki Íslendingabók. Nú hvetur hann fólk til þess að setja myndir af formæðrum, forfeðrum og ættingjum sínum inn á Íslendingabók. Sérstaklega af fólki sem fætt er fyrir 1900 enda mikilvæg menningarverðmæti sem gætu ella glatast.

Friðrik segir Íslendinga almennt duglega að nota Íslendingabók en vissulega koma ákveðnir toppar öðru hverju. Það gerist sérstaklega á sumrin þegar ættarmótin fara fram og svo aftur í desember þegar fólk fer að huga að jólakortunum. Þegar Íslendingar komast í heimsfréttirnar rjúkum við líka til og athugum hvernig viðkomandi er skyldur okkur. 

Nú stendur yfir átak að fá fleiri myndir af fólki inn á Íslendingabók. Friðrik segir það að hluta til vera af eigin hagsmunum, því fleiri myndir sem settar séu inn því áhugaverðari verði vefurinn. „En svo erum við líka að hugsa um það sem hægt er að kalla varðveislu upplýsinga. Það er mjög mikið af gömlum ljósmyndum, myndir teknar af fólki fæddu fyrir 1900. Þær myndir eru í rykföllnum ljósmyndaalbúmum einhvers staðar og svo fellur eigandinn frá og erfingjarnir fá þetta í hendurnar og vita ekkert af hverjum þessar myndir eru,” segir Friðrik.

Friðrik hvetur því alla til að fara í gegnum gömlu ljósmyndaalbúmin og færa myndirnar í tölvutækt form til að setja á vefinn. Hafi það ekki tölvuþekkingu er líka hægt að merkja myndir með blýanti aftan á myndirnar. Setja þá inn upplýsingar um hver er á myndinni og jafnvel hvar og hvenær hún er tekin. „Það er afskaplega leiðinlegt að lenda í því að erfa myndaalbúm eftir ömmu, langömmu eða langafa og uppgvöta síðan að þar sé hellingur af myndum og einhverjir ættingjar en vita ekki hverjir þetta eru.” 

Myndir sem eru settar inn á vefinn birtast hjá afkomendum viðkomandi og öðrum ættingjum. Friðrik segir að þetta geti orðið til þess að fólk sjái mynd af forfeðrum sínum sem það hefur hvorki séð né vitað hvernig leit út. 

Notendur geta þó ekki sett inn myndir af hverjum sem er en ákveðnar takmarkanir gilda um hvaða myndir er hægt að setja inn. „Við leyfum fólki til dæmis ekki að setja inn myndir af núlifandi einstaklingum öðrum en þeim sjálfum og þeirra börnum. Þú getur ekki sett inn mynd af óskildum og ótengdum manni út í bæ. Þú getur heldur ekki sett inn myndir af fólki sem er látið ef það á börn á lífi, þá eru það börnin sem eiga rétt á að setja inn myndir,” segir Friðrik.