Neytendasamtökin vara við innheimtu smálána

14.04.2021 - 14:50
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Norðurlandi eystr
Neytendasamtökin hvetja alla sem fengið hafa innheimtukröfu frá BPO innheimtu að kalla eftir gögnum um kröfuna. Ástæða sé til að ætla að stór hluti krafna sem verið er að innheimta varði ólögleg lán.

Smálánakröfur sem áður voru í eigu E-commerce hafa verið seldar innheimtufyrirtækinu BPO innheimtu samkvæmt tilkynningu frá BPO innheimtu. Neytendasamtökin gjalda varhug við þessum fréttum og segja að fyrirspurnum hafi rignt inn til samtakanna frá því í gær. Í fréttatilkynningu BPO innheimtu í gær sagði að allir vextir og lántökukostnaður, fyrir utan dráttarvexti, yrðu felldir niður. Neytendasamtökin segja að fjárhæð reikninga sem BPO innheimta hafi sent viðskiptavinum sínum nemi ekki einvörðungu höfuðstól krafnanna heldur líka lántökukostnaði, innheimtukostnaði og vöxtum að því er virðist. Þá hafi kröfur verið settar í heimabanka í gær með eindaga sama dag. Dæmi séu um að kröfur hafi hækkað mikið, jafnvel tvöfaldast, frá því í gærkvöldi. 

Neytendasamtökin hafa ráðlagt fólki að greiða höfuðstól lánanna til baka, en ekki vexti sem séu ólöglegir. Einnig telja samtökin að ætla megi að stór hluti þeirra krafna sem sagðar eru hafa verið keyptar varði ólögleg lán. Þau segja að neytendur eigi rétt á að fá sönnun fyrir því að kröfur hafi skipt um hendur. Þau hvetja því alla sem fengið hafa kröfu í heimabanka frá BPO innheimtu að kalla eftir gögnum eins og sundurliðun. Þá hafi samtökunum á undanförnum árum borist allmargar ábendingar um að reynt hafi verið að innheimta gamlar kröfur, sem jafnvel hafi verið fyrndar, en peningakröfur fyrnast á 10 árum og annar kostnaður á fjórum árum. Á heimasíðu Neytendasamtakanna megi finna tillögu að bréfi sem lántakendur geta sent BPO innheimtu.

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV