Lokað að gosstöðvunum á morgun vegna veðurs

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Lögreglan á Suðurnesjum hefur ákveðið að loka upp að gosstöðvunum á morgun þar sem útlit er fyrir að veður verði válynd.

Spáð er suðaustan hvassvirði og úrhellisrigningu á svæðinu á morgun og því ekki talið æskilegt að fólk leggi leið sína að gosstöðvunum. Vindur gæti orðið allt að 20 metrar á sekúndu og úrkoman farið yfir 40 mm. 

Miki álag er á gönguleiðirnar nú þegar og forarsvað hefur myndast sumstaðar. Við aðstæður sem þær sem útlit er fyrir að verði á morgun er ljóst að bæði göngustígar og vegir sem björgunarsveitir og viðbragðsaðilar nota til að komast til og frá svæðinu breytast í ófæran drullupytt ef umferð er ekki takmörkuð. Þá getur reynst erfitt að veita aðstoð ef eitthvað kemur upp á hjá ferðalöngum. 

En blessunarlega verður hægt að fylgjast með öllu sem gerist við gosstöðvarnar í vefmyndavélum RÚV. Slæm veðurspá slær þær ekki út af laginu. Þar sem einnig má finna nýjustu tíðindi af gosinu.