Gasmengun getur borist á móti vindi

Mynd: Bjarni Rúnarsson / RÚV
Mengunin frá eldstöðinni í Geldingadölum getur borist á móti vindi og því er ekki nóg að hafa vindinn í bakið, einkum ef farið er nálægt hraunjaðri. Eldfjallafræðingur segir að þegar gasmenguninni hafi blásið á haf út sé hún þó ekki endilega úr sögunni heldur geti henni blásið til baka til Íslands.

Margir muna eftir Holuhraunsgosinu fyrir tæpum sjö árum einkum vegna þeirra gasmengunar sem lagði af því langar leiðir. Vísindamenn við Háskólann í Leeds í Bretlandi og Háskóla Íslands hafa rannsakað heilsufarsáhrifin í samstarfi við landlækni, Umhverfisstofnun og fleiri. Hanne Carlsen, doktor í lýðheilsufræðum við Gautaborgarháskóla, og Evgenia Ilyinskaya, dósent í eldfjallafræði við Háskólann í Leeds, stýrðu rannsókninni.

„Sú rannsókn leiddi í ljós að það eru mælanleg heilsuáhrif á notkun á astmalyfjum og fólk leitaði meira til heimilislækna og á bráðamóttökuna út af aðallega öndunarfærasjúkdómum,“ segir Evgenía.

 

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV

Rannsóknin sýnir að þegar gefnar voru út gasmengunarviðvaranir voru heilsufarsáhrifin minni því þá gerði fólk ráðstafanir. En gosmökkurinn sem barst frá Íslandi og um Evrópu og kom stundum til baka til Íslands.

„En mengunin var orðin svo þunn að það voru ekki gefnar út viðvaranir þá. En við skoðuðum það eftir á og við sjáum að það eru enn mælanleg heilsuáhrif þó svo að mökkurinn sé orðinn svona þunnur og gamall,“ segir Evgenía.

Og þetta gæti ætti við í gosinu á Reykjanesskaga. Evgenía segir að Veðurstofan ætli að fylgjast með því hvort gosmökkur frá Reykjanesskaganum berist til baka til Íslands. Ekki sé hægt að treysta fyllilega á loftgæðavef Umhverfisstofnunar. 

„Af því að það sem við sáum gerast í Holuhrauni er að þessi gamla mengun sem enginn vissi af, hún sýndi sig ekkert rosalega vel á mælum í rauntímamælingum og spám en við sáum það eftir á að hún var að hafa mælanleg heilsuáhrif,“ segir Evgenía.

Lögregla og björgunarsveitir á Reykjanesskaga hafa áhyggjur af því að nokkrir örmagnast á hverjum degi á göngu sinni til eða frá gosinu og þó er leiðin ekki nema samtals sex til sjö kílómetrar. Gæti verið gasi um að kenna?

„Já, það gæti verið,“ segir Evgenía.

Áreynsla og loftmengun fari ekki vel saman. Þá geti gasið verið ólíkindatól þó svo að þess sé gætt að hafa vindinn í bakið. 

„Eldstöðin er svolítið að skapa sitt eigið veður. Af því að hún er svo heit þá geta svona loftstraumar myndast sem bera gasið á móti vindi nánast. Sérstaklega nálægt hraunjaðrinum þá getur gasið komið upp og hreinlega verið alveg sama hvert vindurinn er að blása. Nú er ég að geta mér til en mögulega er það sem fólk er að fá inn í sig,“ segir Evgenía.