Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Gasmengun á Vatnsleysuströnd og höfuðborgarsvæðinu

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Gasmengun frá gosstöðvunum í Geldingadölum leggur að líkindum yfir Vatnsleysuströnd og höfuðborgarsvæðið í nótt og á morgun en á fimmtudag snýst vindur í suðaustanátt og mun mengunin þá mögulega leggjast yfir Reykjanesbæ. Ekki er þó talið að hætta stafi af.

Sunnan- og suðvestangola er nærri gosstöðvunum í Geldingadölum og vindur á bilinu 3-6 metrar á sekúndu. Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar. Mengun frá eldgosinu berst því til norðurs yfir Vatnsleysuströnd og jafnvel einnig til norðausturs yfir höfuðborgarsvæðið í nótt, en þó ekki í svo miklu magni að hætta stafi af. Þegar líður á daginn er svo spáð suðvestan 8-13 metrum á sekúndu á Reykjanesskaga og berst þá mengunin til norðausturs yfir höfuðborgarsvæðið. 

Gangi spáin eftir verður mengunin mest síðdegis og gæti brennisteinsdíoxíð þá farið yfir heilsufarsmörk þegar verst lætur. Við slíkar kringumstæður er börnum og fólki með astma og aðra öndunarfærasjúkdóma ráðlagt að forðast áreynslu utandyra. Samkvæmt spá Veðurstofunnar snýst vindur í suðaustan á fimmtudag og mun mengunina þá leggja yfir Reykjanesbæ.

Hægt er að fylgjast með þróun gasmengunar á vef Umhverfisstofnunar og þar eru einnig ráðleggingar um viðbrögð við henni.
 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV