Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Eldur í Lagarfljótsbrú – brúargólfið brunnið á kafla

14.04.2021 - 15:08
Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV
Nokkrar skemmdir urðu á Lagarfljótsbrú í dag þegar rafstrengur undir brúnni ofhitnaði og kveikti í brúargólfinu. Önnur akreinin er lokuð vegna skemmda og er umferð stýrt yfir brúna. Starfsmenn ISAVIA á Egilsstaðaflugvelli skutu báti út á Lagarfljót og slökktu eldinn eftir að vegfarendur höfðu reynt að gera það sjálfir.

Í spilaranum hér fyrir ofan má sjá myndir af brunanum og viðtal Rúnars Snæs Reynissonar við Ingvar Birki Einarsson, varaslökkviliðsstjóra hjá Brunavörnum á Austurlandi.

„Það lítur út fyrir að það hafi kviknað út frá einhvers konar strengjum sem eru undir brúnni. Við fengum fengum aðstoð frá Isavia-mönnum sem komu á báti til að slökkva í neðan frá,“ segir Ingvar Birkir. Hann segir að töluverður eldur hafi náð að læsa sig í brúargólfið.

„Einnig þurftum við að saga aðeins til þess að komast í glæðurnar,“ segir hann. Það sé mat slökkviliðsins að óhætt sé að hleypa þungaflutningum á brúna en Vegagerðin verði að meta það betur.

„Við vorum svolítið hissa,“ segir Ingvar Birkir spurður hvort hann hafi einhvern tíma átt von á því að fá útkall vegna þess að kviknað væri í Lagarfljótsbrú. „Mjög sérstakt að sjá loga þarna úr gólfinu. Það er hellings eldsmatur hérna á brúnni. Það hefur spænst vel upp úr dekkinu í vetur og mikið sem getur logað hérna.“

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV