Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Athuga hvort fornleifar leynist í Teigsskógi

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Vegagerðin heggur nú leið í gegnum birkið í Teigsskógi í Gufudalssveit, þar sem nýr Vestfjarðavegur á að liggja. Það er gert til þess að leita af sér allan grun um að þar leynist fornleifar.

Búið er að fella leið í gegnum skóginn í Melanesi við Gufufjörð og nú er unnið við Hallsteinsnes við Djúpafjörð í Gufudalssveit. Sigurþór Guðmundsson, verkstjóri hjá Vegagerðinni, segir þetta hluta af skilyrðum í framkvæmdaleyfi til veglagningarinnar.

„Að sjálfsögðu var þetta allt skráð í mati á umhverfisáhrifum og farið yfir þetta þá, en maður veit aldrei þannig að við erum að tryggja okkur að það sé örugglega allt upp á borðum í þessu,“ segir hann.

Lífmassamælingar standa þá einnig yfir. Fuglatalningar fara fram í sumar og verður þá botnlíf í fjörðunum rannsakað. Þá taka við jarðvegsrannsóknir til vegagerðarinnar sjálfrar.

Ósamið við landeigendur að Gröf

Enn hefur ekki fengist niðurstaða í samningsviðræður við landeigendur að Gröf í Þorskafirði, en Sigurþór segir að þær standi yfir.

Í næstu viku verður hafist handa við þverun Þorskafjarðar sem styttir Vestfjarðaveg um tíu kílómetra. Framkvæmdir á rúmlega sex kílómetra kafla í Gufufirði hafa þá staðið yfir í vetur og á að ljúka í júlí á þessu ári.

„Við stefnum svo á að Djúpadalsvegurinn fari í útboð núna í vor.“

Sá vegur tengir Djúpadal við hinn nýja Vestfjarðaveg. Sigurþór vonast til að hægt verði að byrja á þverun Gufufjarðar í haust.

Mynd með færslu
 Mynd: Geir Ólafsson - RÚV
Hér má sjá hvernig nýr Vestfjarðavegur mun liggja