Árný býður upp á rímur og prjónaskap í Rotterdam

Mynd: Daði Freyr og Árný Fjóla / Daði Freyr Pétursson

Árný býður upp á rímur og prjónaskap í Rotterdam

14.04.2021 - 13:46

Höfundar

Íslenski Eurovision-hópurinn er byrjaður að undirbúa ferðalag til Rotterdam þar sem Daði og Gagnamagnið stíga á svið í fyrri undanúrslitum 20. maí. Felix Bergsson fararstjóri íslenska hópsins, segir að enn sé mjög óljóst hver komi til með að sigra keppnina í ár. Daða er spáð sjöunda sæti með lagið 10 years sem gæti auðveldlega skriðið ofar þegar fólk hefur lært dansinn.

Nú styttist í að Daði, Gagnamagnið og íslenska föruneyti Eurovision í ár haldi til Rotterdam til að taka þátt í keppninni sem fer fram 18., 20. og 22. maí. Að venju verður hitað upp fyrir stóru keppnina með gamansömum umræðum og hugleiðingum um lögin í ár í þættinum Alla leið sem hefst á laugardag í umsjón Felix Bergssonar sem er stjórnandi þáttarins eins og síðustu ár.

Honum til halds og trausts verða diskódrottningin Helga Möller og Sigurður Þorri Gunnarsson dagskrár- og tónlistarstjóri K100. Í hverjum þætti verða að venju líka gestastjórnendur sem fara yfir lögin í keppninni og segja sitt álit. Felix kíkti í Mannlega þáttinn á Rás 1 og sagði frá þættinum og því helsta sem er að frétta úr Eurovision-heiminum.

Helga hefur sterkar skoðanir eins og diskódívum er lagið

Felix er spenntur fyrir upphituninni og afar ánægður með föstu álitsgjafana Helgu og Sigurð. „Hann hefur komið sterkur inn og er skemmtilegur hann Siggi“ segir Felix. „Hann er kraftmikill og lífsglaður, hefur miklar skoðanir og frá mörgu að segja.“ Helga Möller veigrar sér heldur ekki við því að segja sitt álit á lögunum og jafnvel persónulegu mati annarra. „Helga hefur náttúrulega rosalegar skoðanir eins og diskódívum einum er lagið.“

Heiðursgestir í fyrsta þættinum verða Lovísa Árnadóttir fyrrverandi fréttkona og Doktor Gunni sem upplýsir á laugardag að hugmyndin að þáttunum sé frá honum komin. „Hann hafði samband við Pál Óskar og spurði hvort það ætti ekki að gera eitthvað í þessu, að spjalla um Eurovision, og Palli kemur með hugmyndina inn á RÚV samkvæmt því sem hann segir.“

Enginn bjóst við að Conchita Wurst myndi sigra

Formið á þáttunum er að mestu hefðbundið í ár. Fyrst verður rýnt í fyrri undanútslitariðil og svo síðari hluta og að lokum er farið yfir lög þeirra sex þjóða sem eiga fast sæti í úrslitunum. „Svo skoðum við hvaða lög dómnefnd Alla leið segir að fari í úrslitaþáttinn og veljum okkur sigurvegara. Það er mikið spáð og spekúlerað og óskaplega gaman hvað fólk fylgist vel með þessu og hefur mikinn áhuga,“ segir Felix.

Hann segir hópinn stundum hafa verið sannspáan en alltaf komi eitthvað á óvart því það sé ekki nóg að vera með lag sem hljómar vel í útvarpi, sviðsframkoman skipti máli og ekkert ráðist fyrr en í sjálfum úrslitinum. „Það skiptir öllu máli hvað gerist á sviðinu í Rotterdam. Það verður svo mikil breyting þegar listamaðurinn stígur á svið.“

Sem dæmi um lög sem hafi ekki verið sigurstrangleg fyrr en komið var á sviðið nefnir hann meðal annars Conchitu Wurst, dragdrottninguna frá Austurríki. „Það hafði engin trú á því. Svo bara birtist hann í kjólnum og sviðinu og tók það,“ rifjar Felix upp.

Upphækkun hjá Eyþór og Jóhönnu Guðrúnu olli gæsahúð

Eins sé erfitt að spá með íslensku atriðin fyrr en komið er á sviðið og Felix viðurkennir að hafa stundum fengið gæsahúð af hrifningu. „Ógleymanlegt móment þegar Eyþór Ingi tók háa tóninn í Ég á líf og maður vissi á því mómenti að þetta lag væri að fara að gera það gott í keppninni,“ segir Felix.

Eins hafi orðið ljóst þegar Jóhanna Guðrún tók upphækkun í laginu Is it true að hún myndi vera í einu af efstu sætunum enda hafnaði hún í öðru sæti með lagið.

Ekkert víst hver vinnur í ár

Stundum hefur verið nokkuð ljóst hvaða land hreppir hnossið áður en keppnin fer fram og nefnir Felix sem dæmi hinn norska Alexander Rybak sem var sá eini sem átti roð í Jóhönnu Guðrúnu, og Euphoriu með Loreen sem enn er í nokkuð mikilli spilun. Í ár sé ekkert eitt lag sem hafi sigrað fyrir fram. „Það er ekki komið og það verður gaman að sjá hvernig fer í Alla leið.“

Ástralía hefur ekki staðfest komu sína

Það er enn aðeins óljóst hvernig keppnin fer fram í ár, en það er alveg víst að hún verður haldin. Allar keppnisþjóðir nema ein hafa nú þegar boðað komu sína en það eru Ástralar sem eru í vandræðum með að finna flug fyrir slíka vegalengd auk þess sem þeirra bíður tveggja vikna sóttkví við heimkomu sem flækir málin. Mæti þau ekki á svæðið taka þau þrátt fyrir allt þátt með því að sýna myndskeið af lifandi flutningi, sem allar þjóðir hafa þegar tekið upp frá sínu heimalandi. „En svo á ýmislegt eftir að skýrast. Það munu koma upp einhver smit eða eitthvað og þá verður þetta flókið, en kemur í ljós hvort lögin komist á svið eða ekki. Það fara allir til Rotterdam og við sjáum hvað gerist svo,“ segir Felix.

Það verða 3500 áhorfendur í höllinni í sætum en það er hámarksfjöldi sem hægt var að leyfa í höllinni að virtum fjarlægðar- og samkomureglum. Það eru töluvert færri en undanfarin ár. „En 3.500 manns geta gert góð læti svo það verður bara stuð.“

Prjónakvöld og kveðskapur í boði Árnýjar

Keppendur fá ekki tækifæri til að virða fyrir sér borgina og samskipti verða afar takmörkuð utan hópsins. En hópurinn hefur þegar planað skemmtilega dagskrá og ljós að þeim á ekki eftir að leiðast í Rotterdam. „Við erum að fara að taka með okkur borðspil og svo er verið að plana kvöldvökur,“ segir Felix spenntur. „Hún Árný konan hans Daða er svo skemmtileg og hún ætlar að vera með gamaldags kvöldvökur þar sem við munum prjóna og kveðast á.“

Veðbankar segja sjöunda sæti en allt getur gerst

Veðbankar spá Daða sjöunda sæti í augnablikinu en það er nægur tími til stefnu og allt gæti gerst. Eftir að lagið Think about things sigraði heiminn í fyrra hefur Daði eignast stóran aðdáendahóp og Felix lýsir honum sem alheimsstjörnu. „Lagið er í mikilli spilun og það lítur allt mjög vel út.“ Felix hefur trú á að hann geti skriðið enn hærra upp listana. „Það vantar það sem gerðist í fyrra að dansinn fari í gang en það getur alveg gerst. Ég bendi á að Daði kemur aftan að manni. Lögin hans hafa komið neðan frá og sprungið út.“

Daði er líka dásamlegur og duglegur orkubolti sem stendur fast á sínu, að sögn Felix. „Hann er mjög ákveðinn á sínu, við höfum verið að reyna að fara með hann eitthvað en ef honum finnst það ekki þá er það bara nei. Hann veit hvað hann vill og hvernig hann vill hafa hlutina og það er svo gott að vinna með svoleiðis fólki.“

Rætt var við Felix Bergsson í Mannlega þættinum á Rás 1. Alla leið hefur göngu sína á laugardag klukkan 19:45.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Daði og gagnamagnið áttundu á svið í Rotterdam

Tónlist

Daði og Gagnamagnið frumsýna myndbandið við 10 Years

Sjónvarp

„Ég kyssti hana líka, bara svo það sé á hreinu“