Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Von er á nýrri ferðagjöf

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Von er á nýrri ferðagjöf, svipaðri þeirri sem landsmenn fengu frá stjórnvöldum í fyrra. Ferðamálaráðherra segir ferðagjöfina hafa gefið góða raun og að nýja gjöfin verði kynnt á næstu dögum.

Í fyrra fengu allir landsmenn 18 ára og eldri 5.000 króna ferðagjöf frá stjórnvöldum sem nota mátti til að greiða niður kostnað á hótelum, menningarviðburðum, afþreyingu og veitingastöðum. Henni var ætlað að bregðast tímabundið við neikvæðum áhrifum kórónuveirufaraldursins á starfsemi ferðaþjónustufyrirtækja, þessi aðgerð kostaði einn og hálfan milljarð og nú hafa um 200 þúsund nýtt sér gjöfina sem gildir út maí. 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra, segir að mikill vilji sé innan ríkisstjórnarinnar til að bjóða landsmönnum upp á nýja ferðagjöf. 

„Við erum að vinna að því í samhengi við önnur atriði á þessum vonandi síðasta fasa í þessu verkefni. Sú vinna gengur bara vel og það kemur í ljós á allra næstu dögum hver útfærslan verður,“ segir Þórdís.

Hún segir að meðal þess sem eigi eftir að útfæra sé upphæð gjafarinnar, gildistími hennar og fyrirkomulagið. „Þetta gekk mjög vel í fyrra og það er pólitískur vilji til að gera þetta áfram.“