Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Stöðugt hraunflæði í nýju gígunum

13.04.2021 - 15:51
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Jóna Sigurlína Pálmadóttir, mastersnemi í jarðfræði fór á gosstöðvarnar í dag með samnemendum sínum í þeim tilgangi að kortleggja hraunflæði í Meradölum og taka sýni. „En þegar við vorum nýkomin þá bara byrjaði sprunga allt í einu að myndast og við öll hlupum og fórum að mæla og mynda,“ segir Jóna Sigurlína. Hún telur að enn sé stöðugt flæði í nýju gígunum, en gæti verið að færast kraftur í þá eftir því sem veggirnir í kringum gíginn stækka.

Þá byrjuðu mælarnir að pípa vegna lítils háttar gasmengunar og færa þurfti viðtalsstaðinn ofar í brekkuna. „Ekkert smá heppin að geta verið nýkominn og séð sprungu myndast og rannsakað í rauntíma,“ segir hún. Gígarnir eru allavega þrír í miðju hrauninu.

En er að færast meiri kraftur í nýju gígana? „Mér finnst að það hafi aðeins aukist í þeim eftir að þeir byrjuðu að mynda meiri kóna í kringum sig, en þetta hefur verið ágætlega stöðugt samt sem áður.“

Nýju gígarnir hafa mikið aðdráttarafl og nú upp úr klukkan þrjú í dag voru rúmlega tvö hundruð bílar á bílastæðinu við upphaf gönguleiðarinnar, enda er frábært veður en björgunarsveitin er með aðgengi almennings þangað í sífelldri endurskoðun með tilliti til nýju gígana og gasmengunar.

Þórdís Arnljótsdóttir fréttamaður og Þór Ægisson kvikmyndatökumaður hafa verið á svæðinu í dag og tóku viðtalið og myndskeiðið í spilaranum hér fyrir ofan.

Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir - RÚV
Einn af nýju gígunum.