Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir ákvæðum smyglað í frumvarp

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Forseti Alþýðusambands Íslands segir að fjármálaráðherra sé að smygla atriðum inn í frumvarp um breytingar á iðgjöldum í lífeyrissjóði og villa um fyrir þinginu undir yfirvarpi samráðs við verkalýðshreyfinguna. 

Fjármálaráðherra hefur kynnt frumvarp um breytingar á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds í lífeyrissjóð, í 15,5% úr 12 prósentum. Í greinargerð frumvarpsins er vísað til þess að um árabil hafi verið unnið markvisst að því að bæta vinnubrögð við kjarasamninga og stuðla að samræmingu réttinda á almennum og opinberum vinnumarkaði.  Segir líka að frumvarpið byggist á tillögum nefndar sem aðilar vinnumarkaðarins hafi átt fulltrúa í. Drífa Snædal forseti Alþýðusambandsins segir að vissulega hafi um árabil verið stefnt að því að hækka lífeyrisiðgjöld og í kjarasamningum fyrir tveimur árum hafi verið gefin út yfirlýsing um nokkur atriði, sem þrýst hafi verið á lagasetningu um, þau séu þarna inni. 

 

Síðan er verið að smygla öðrum atriðum inn sem eru án samráðs og án vilja okkar. Það ber kannski hæst að hækka lífeyrisgreiðslualdur úr sextán í átján ár. Þar með er fjármálaráðherra að taka upp á sitt einsdæmi gjöf til atvinnurekenda upp á hundruð milljóna króna á ári, við erum að láta reikna það fyrir okkur núna. Það er eitthvað sem er án samráðs og mun aldrei fara í gegn við munum berjast hart gegn því. 

Drífa nefnir líka að samkvæmt frumvarpinu eigi að reikna verðbætur lífeyrisréttinda árlega en ekki mánaðarlega; það geti haft mikil áhrif á lífeyrisgreiðslur í verðbólgu. Í þriðja lagi undanþáguákvæði sem eigi sérstaklega við sjómenn sem hafa samið um 12 prósenta framlag. Sú undanþága vill ASÍ að renni út á tveimur árum svo sjómenn hafi sömu lífeyrisréttindi og aðrir í landinu. 

Það alvarlega í þessu er náttúrulega að fjármálaráðherra virðist vera að villa um fyrir þinginu, þannig að hann skrifar í greinargerð að þetta hafi verið unnið í samráði, en það er bara að hluta til rétt. Þannig að þessi atriði, sem eru aukreitis í þessu frumvarpi og eru ekkert smá mál, þau voru algerlega án samráðs og við höfum komið þeim athugasemdum á framfæri og erum núna að vinna að upplýsingum til þingheims um þessa stöðu.