Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lækka hámarkshraða á fleiri götum

13.04.2021 - 21:58
Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Þór Ingvarsson - RÚV
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri telur ekki einboðið að lækkun hámarkshraða á götum leiði til aukinna umferðartafa. Til stendur að fjölga þeim götum í borginni þar sem ekki má keyra hraðar en 30 kílómetra á klukkustund.

 

Draga má úr svifryksmengun um allt að 40% með því að minnka hámarkshraða á götum úr 50 kílómetrum í 30 kílómetra. Þetta kemur fram í rannsókn sem Þröstur Þorsteinsson prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands vann í samstarfi við Vegagerðina. Rannsóknin var kynnt í síðustu viku.

Borgarstjóri segir að horfa verði til margra þátta þegar ákvarðanir eru teknar um hámarkshraða á götum. Þar á meðal til öryggis íbúa, hávaða og einnig mengunar.

„Við höfum verið að vinna núna með nýjar tillögur í kjölfar umferðaröryggisáætlunar þar sem við kortlögðum bæði árangurinn af 30 kílómetra hverfunum, sem hefur verið frábær, og niðurstaðan þar verður væntanlega sú að stækka þau,“ segir Dagur.

Margar af stærstu umferðargötum Reykjavíkur eru á ábyrgð Vegagerðarinnar og því ekki borgaryfirvalda að ákveða hámarkshraða þar.

„Mér finnst Vegagerðin vera eflast í því að horfa á rannsóknir, nýta bestu gögn og stuðla með okkur að eins góðum lífsgæðum í borginni eins og hugsast getur en ekki bara hámarkshraða þeirra sem hraðast vilja keyra,“ segir Dagur.

Dagur segir ekki einboðið að lækkun hámarkshraða leiði til aukinna tafa í umferðinni.

„Við vitum að á aðeins lægri hraða þá verður umferðin þvert á móti liprari. En hins vegar er því ekkert að leyna að þetta er ákveðið jafnvægi. Jafnvægi milli hagsmuna þeirra sem vilja keyra hratt framhjá leiksvæðum þar sem fólk býr nálægt umferðargötum og síðan hinna sem búa þar og hafa áhyggjur af börnunum sínum. Vilja ekki mengunina eða hávaðann sem fylgja miklum hraða,“ segir Dagur.

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV