Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Dalabyggð skoðar sameiningar austur og vestur

Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót / RÚV
Dalabyggð vill skoða mögulega sameiningu við þrjú sveitarfélög. Annars vegar Húnaþing vestra og hins vegar Stykkishólmsbær og Helgafellssveit. Sveitarfélagið lagðist í valkostagreiningu í vetur og athugaði sérstaklega sameiningarmöguleika við tólf nágrannasveitarfélög sín í sex mismunandi útfærslum. Möguleikarnir teygðu sig í allar áttir, allt suður í Skorradal og norður í Árneshrepp.

„Það er álíka langt frá Búðardal í Borgarnes, Stykkishólm, Hvammstanga, Reykhóla, Hólmavík og við eigum í góðu samstarfi við alla okkar nágranna þannig að það eru margir möguleikar í stöðunni,“ segir Kristján Sturluson, sveitarstjóri í Dalabyggð.

Að endingu buðu Dalamenn annars vegar Stykkishólmsbæ og Helgafellssveit og hins vegar Húnaþingi vestra til fundar um mögulega sameiningu. 

Tæplega 2000 íbúa sveitarfélag í báðum tilvikum

Yrði af sameiningu vestur á Snæfellsnes teldi sveitarfélagið um 1900 íbúa með tveimur þéttbýliskjörnum, Búðardal og Stykkishólmi. Sameiningarframlag frá ríkinu yrði 831 milljón króna.

Sameining yfir Laxárdalsheiði með Húnaþingi vestra gæfi af sér um 1850 íbúa sveitarfélag þar sem þéttbýliskjarnarnir yrðu Búðardalur og Hvammstangi. Það fengi 365 milljónir króna í sameiningarframlag.

Álíka langt er frá Búðardal í Stykkishólm og á Hvammstanga, rúmlega áttatíu kílómetrar.

Samgöngumál helsta áskorunin

Í báðum tilvikum yrðu samgöngumál stærsta áskorunin. Eins og á Skógarstrandarvegi. Stofnvegi sem tengir Snæfellsnes og Dalina. Í hina áttina væri það vegurinn yfir Laxárdalsheiði yfir í Húnaþing.

„Það er algjört grundvallaratriði að í báðum þessum tilvikum sé heilsársvegur með bundnu slitlagi,“ segir Kristján sem leggur áherslu á að þetta séu einungis fyrstu þreifingar.

„Þetta er það sem sveitarstjórn vildi skoða fyrst. Svo gæti vel verið að aðrir möguleikar, öðruvísi samsetningar verði skoðuð. Þetta er allt saman mjög opið eins og er.“

Lagt sé upp með að Dalamenn gangi endanlega til kosninga um sameiningu 2024.

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir