Vonar að hægt verði að slaka á aðgerðum

Mynd með færslu
 Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, reiknar með að skila minnisblaði til heilbrigðisráðherra í dag með tillögum að næstu skrefum varðandi aðgerðir innanlands. Ráðherra mun væntanlega kynna drög að nýrri reglugerð á ríkisstjórnarfundi á morgun. Hann vonar að hægt verði að slaka eitthvað á. Áfram greinist fólk utan sóttkvíar sem Þórólfur segir að sýna að veiran sé enn í gangi þótt hún hafi ekki náð sér á flug. „Við þurfum að fara að öllu með gát.“

Ríkisstjórnin boðaði stórhertar aðgerðir þann 24. mars til að reyna kæfa í fæðingu útbreiðslu hins svokallaða „breska afbrigðis“  sem þá hafði gert vart við sig innanlands. Líkamsræktarstöðvum og sundlaugum var meðal annars lokað sem og krám.  

Stjórnvöld sögðust vilja grípa til hertra aðgerða strax með þeirri von að hægt yrði að slaka á fyrr. Reglugerðin fellur úr gildi á miðnætti á fimmtudag. Þórólfur segir í samtali við fréttastofu að hann muni skila nýju minnisblaði til ráðherra í dag.  

Heilbrigðisráðherra mun væntanlega kynna drög að nýrri reglugerð eða tillögur Þórólfs á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Þórólfur vonar að hægt verði að slaka eitthvað á. „Ég held að við munum nýta okkur þá reynslu þegar við vorum aflétta í þriðju bylgjunni. Við höfum ákveðna reynslu í farteskinu, ég vona að hægt að verði að slaka eitthvað á,“ segir Þórólfur.

Þegar þriðju bylgjunni var um það bil að ljúka var ráðist í mjög varfærnar tilslakanir og reikna má með að eitthvað svipað verði upp á teningnum nú. Fjöldatakmörk voru sett við 20, líkamsræktarstöðvum og sundlaugum var leyft að opna en með mjög ströngum skilyrðum og íþróttastarf barna og fullorðinna var heimilað og sömuleiðis íþróttakeppnir án áhorfenda. 

Aðeins einn greindist með kórónuveiruna í gær. Sá var í sóttkví. Um helgina greindust nokkrir með COVID utan sóttkvíar á Suðurnesjum.  Þórólfur segir erfitt að rekja nákvæmlega hvernig fólkið smitaðist en þau hafi ákveðnar grunsemdir sem þurfi að staðfesta með raðgreiningargögnum. Ekki þurftu margir að fara í sóttkví vegna smitanna.

Fréttin hefur verið leiðrétt. Núverandi reglugerð fellur úr gildi á miðnætti á fimmtudag.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV