Vill skýrari svör um afléttingu sóttvarna

Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi
Forsætisráðherra segir að áætlun um afléttingar sóttvarna verði kynnt um leið og áætlun um bólusetningar skýrist. Þingmaður Viðreisnar segir fólk og fyrirtæki þurfa svör til að skipuleggja sig fyrir næstu mánuði og vísar í áætlanir sem Norðmenn og Danir hafa þegar kynnt.

 

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, óskaði í dag eftir svörum forsætisráðherra við hvenær mætti vænta þess að rammi um afléttingar sóttvarna yrði birtur svo fólk og fyrirtæki í landinu gætu gert áætlanir utan um rekstur sinn með hliðsjón af þeim.

Sóttvarnalæknir hefur sagt að hann sjái ekkert því til fyrirstöðu að stjórnvöld leggi fram slíkar áætlanir.

Danir og Norðmenn hafa nú þegar birt afléttingaráætlanir sínar. Danir munu taka ákveðin skref í átt til fyrra lífs þegar allir sem eru 50 ára og eldri hafa verið bólusettir og Norðmenn hafa kynnt áætlun sem tekur gildi í nokkrum skrefum til júníloka.

Ég vil því spyrja um eitthvert dagatal um opnanir, einhverja markvissa áætlun í því sambandi, einhverja sýn? 

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, telur skynsamlegast að haga áætlunum eftir því hvernig gengur að bólusetja. Um mitt árið verði byrjað - og eða búið að bólusetja um 240 þúsund af þeim 280 þúsund sem til stendur að fái sprautu.

Þannig að við ættum, miðað við að þær áætlanir gangi eftir að geta sett  upp  einhverjar vörður á þeirri leið. Ég er mjög glöð að standa ekki í þeim sporum núna eins og margir kollegar mínir  að vera jafnvel að opna núna fyrst skóla eða hleypa fólki í klippingu. Ég held að það segi að þessar aðgerðir hafa svo sannarlega skilað árangri. 

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV