Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þórólfur fór ekki í bólusetningu

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir afþakkaði bólusetningu sem heilbrigðisstarfsmaður utan stofnana og ætlar að bíða þar til kemur að aldurshópi hans. "Ég vil fara eftir mínum eigin tilmælum,“ segir hann. Búast má við að slakað verði á sóttvarnatakmörkunum á föstudaginn. Sóttvarnalæknir gerir ráð fyrir að skila minnisblaði í dag.

Smitin eru á Suðurnesjum

Beðið er raðgreiningar á veirum þeirra tveggja sem greindust utan sóttkvíar í fyrradag. 

„Það er búið að rekja það en það er kannski erfitt að segja nákvæmlega hvernig það er tilkomið. Við þurfum líka að styðjast við raðgreininguna,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. 

Hann segir þau smituðust búa á Suðurnesjum og ekki þurfi margir að fara í sóttkví þeirra vegna.  

Tilslakanir á föstudaginn

Núgildandi sóttvarnareglur renna út á miðnætti á fimmtudaginn. Þórólfur skilar líklega minnisblaði um hvað tekur við til ráðherra í dag. Hann segir að þegar þessar ströngu takmarkanir voru settar á 25. mars hafi það verið gert í þeirri von að hægt væri að slaka fyrr á. 

„Og svona ég vonast til að það bara gangi eftir.“

Þannig að það má kannski búast við einhverjum losunum?

„Já, ég vonast til þess að það verði hægt að gera eitthvað í þá áttina, já.“

Endalaust hægt að spá í hver á að vera á undan hverjum

Meðal þeirra hópa sem fá bólusetningu þessa dagana er heilbrigðisstarfsfólk utan stofnana. Í þeim hópi er meðal annars fólk sem ekki kemur nálægt sjúklingum. Nefnt hefur verið að nær væri að bólusetja til dæmis kennara: 

 „Maður getur týnt sér endalaust í því að fara að bera saman starfsmenn, hverjir ættu að vera á undan hverjum osfrv. Við erum með reglugerð um forgangsröðun og við reynum bara að halda okkur við hana.“

Var boðaður í bólusetningu en mætti ekki

Sóttvarnalæknir tilheyrir sjálfur hópnum heilbrigðisstarfsfólk utan stofnana: 

Ég er búinn að fá bólusetningu. Ég hef ekki farið. Ég bíð eftir að komi að mér í aldurshópi. Ég kom með þær leiðbeiningar og tilmæli til heilbrigðisstarfsmanna utan stofnana sem ekki væri að sjá sjúklinga að þeir myndu bíða þangað til að þeim kæmi. Og það er náttúrulega ekki eðlilegra en að ég fari bara eftir mínum eigin leiðbeiningum. En ég mun fara þegar að mér kemur aldurslega séð eins og aðrir.“

Þórólfur tekur þó fram að stundum sé afgangur af bóluefni á hverjum degi því sumir mæti ekki. Því sé með afar stuttum fyrirvara einhverjir boðaðir, til dæmis heilbrigðisstarfsfólk utan stofanana, því að það sé mjög mikilvægt að nota allt bóluefni sem til er. Það komi öllum til góða.