Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Stormsveipur af texta

Mynd: - / Angustura

Stormsveipur af texta

12.04.2021 - 12:05

Höfundar

Orðbragðið er makalaust í skáldsögunni Ef við værum á óvenjulegum stað eftir Juan Pablo Villalobos, segir Gauti Kristmannsson gagnrýnandi. „Þótt þetta sé einhvern veginn þroskasaga er erfitt að sjá hvernig sá þroski er til einhvers gagns og það undirstrikar fáránleika samfélagsins sem höfundur lýsir.“

Gauti Kristmannsson skrifar:

Til er á þýsku orðið „Nestbeschmutzer“ sem þýða mætti sem hreiðurspillir, en það er notað um þann sem talar illa um eigin hóp, fjölskyldu, bæjarfélag eða þjóð. Þetta er neikvætt hugtak og aðfarir hreiðurspillisins oftast nær illa séðar af þeim sem hagsmuna eiga að gæta í viðkomandi hreiðri og oft hefur farið illa fyrir þeim sem þetta iðka, þótt oft sé það kannski aðeins heiðarleg gagnrýni á ástandi sem þurfi að bæta. Við þekkjum dæmi hér á landi líka. En hvað ef hreiðrið er hreinlega orðið ónýtt og ekkert lengur hægt að gera til að bæta það, þótt það sé enn fyrir hendi á einhvern furðulegan hátt, gegnsýrt af spillingu og glæpum? Þá er kannski háðið síðasta vopnið, snúið jafnvel upp í absúrdískan súrrealisma, helst þannig að undan svíði fyrir hreiðurkónga.

Þannig finnst mér málið dálítið vaxið í þessari skáldsögu, Ef við værum á venjulegum stað, eftir mexíkóska rithöfundinn Juan Pablo Villalobos sem er að einhverju leyti þroskasaga ungs, mexíkósks pilts sem ber það skáldlega nafn Órestes. Systkini hans 6 bera einnig nöfn úr forn-grískri menningu, líkast til vegna þess að faðir þeirra er framhaldsskólakennari og metur þessa arfleifð Vesturlanda, en líklegar er þó verið hækka íroníuna um eitt stig enn, því fjölskyldan sem hér er undir er vægast sagt nokkuð sérkennileg og býr við fátæktarmörkin, þrátt fyrir starf föðurins. Sagan er kölluð skálkasaga, píkaresk saga, af þýðandanum, Jóni Halli Stefánssyni, í upplýsandi eftirmála, þar sem hann fer yfir söguna og þýðingu sína á henni í stuttu og greinargóðu máli. Það má vissulega til sanns vegar færa, en höfundurinn leitar víðar fanga, kannski fremur til að bæta við satíruna og íroníuna sem drýpur af henni eins og síróp úr skeið. Dæmi um það er kannski töfraraunsæið sem bregður fyrir í tveimur köflum, sem verður svo súrrealískt að það snýst upp í andhverfu sína.

Höfundurinn er líka forvitnilegur maður, lærði fyrst markaðsfræði, en þegar hann hóf störf við það hreis honum hugur við leiðindunum, sem því starfi fylgdu, og hann fór í bókmenntafræði og skrifaði loks doktorsritgerð í því fagi við háskólann í Barcelona, þar sem hann býr núna. Skáldsögum hans hefur verið vel tekið, erlendis sem hérlendis, en gerður var góður rómur að fyrstu sögu hans, Veislu í greninu, í þýðingu Maríu Ránar Guðjónsdóttur. Sú bók mun vera fyrsta í þríleik hans um Mexíkó og bókin sem hér er undir númer tvö. En sú staðreynd að hann býr í Barcelona og bækur hans eru gefnar út þar, skýrir kannski hvers vegna hann getur gagnrýnt heimalandið með svo afgerandi hætti, ég er ekki viss um að allir væru viðhlæjendur hans í Guadalajara þar sem hann fæddist.

Á bak við er einmitt ástandið í landinu þegar sagan gerist, undir lok níunda áratugarins, þegar Carlos Salinas de Gortari komst til valda og kom landinu á endanlega vonarvöl eftir nokkur ár einkavæðingar og spillingar með gríðarlegri aukningu á ójöfnuði sem leiddi efnahagslegrar krísu og glæpavæðingar í stórum stíl. Þar voru skuldir í erlendum lánum og gengisfelling pesósans mexíkóska í aðalhlutverki, og kemur það allt kunnuglega fyrir sjónir. Saga Villalobos snertir ekki beint á þessu, nema til dæmis með því að lýsa fáránleika matbjarga fjölskyldunnar í viðurnefnum á aðalfæðunni, ostafyllum, gengisfellingarostafyllur, fátæktarostafyllur og þar fram eftir götunum. Þessi fæða leikur raunar stór hlutverk í allri sögunni, svo stórt að titillinn á ensku þýðingunni er Quesadillas, en öll umræða um mat hjá sögumanni undirstrikar hungrið sem börnin sjö búa við í þessari millistéttarfjölskyldu, sem kallar sig svo, þrátt fyrir fátæktina. Eitt dæmi úr bókinni hljóðar svo: „„Mamma, er hægt að hætta að vera fátækur?“ / „Við erum ekki fátæk, Óreó, við erum millistéttarfólk,“ svaraði mamma, eins og félagsleg og hagræn staða væri hugarástand.“ (36) Tilsvarið sýnir líka í hnotskurn stöðu sögumanns í frásögninni, þótt sagan sé í fyrstu persónu er hún sögð af einhverjum menntaðri og mælskari en dreng táningsaldri, en þýðandinn telur þetta vera markviss íronía höfundarins og það er sannarlega oft fyndið að lesa dálítið hátíðlegar lýsingar og orðfæri í söguumhverfi sem hlýtur að hafa verið töluvert hrárra en það gefur til kynna.

Orðbragðið er reyndar makalaust í þessari sögu. Hún hefst á svívirðingum föðurins í garð stjórnmálamanna sem eru af blóðskammarlegum toga og það má segja hún rjúki þannig af stað, lesandinn sér strax að hér er ekkert tvínónað við hlutina. Úthverfið sem þau búa í kallar hann Rassgatsfell og annað orðfæri í samtölum feðganna og bræðranna er í sama stíl. Frásögnin rennur svo áfram með háleitara orðfæri eins og áður var greint. Þetta getur verið meira en kímið á köflum og á stundum minnti krafturinn mig á Holden Caulfield í annarri stuttri sögu, Bjargvættinum í grasinu, þótt ferðalag Órestesar sé af allt öðrum toga. En átökin við ofurþunga aðstæðna eru samt einhvern veginn ámóta. Og þótt þetta sé einhvern veginn þroskasaga er erfitt að sjá hvernig sá þroski er til einhvers gagns og það undirstrikar fáránleika samfélagsins sem höfundur lýsir, fáránleiki sem stýfir allan þroska, vegna þess að það er engin þróun og allt endar í absúrd fantasíu, nánast.

Lokakafli bókarinnar er svo saga út af fyrir sig, sem ekki er hægt að greina frá hér án þess að spilla fyrir væntanlegum lesendum, en þýðandinn nefnir hann sérstaklega í eftirmála sínum og ræður lesendum frá að dæma hann of hart; hann bendir á að hann skeri sig úr formi skálkasögunnar og minni jafnvel fremur á sýrubókmenntir hippatímans en sé samt „fullkomlega skiljanlegur í raunsæislegu samhengi“ (175). Um það má deila, en eftirminnilegur er hann og sannast sagna, í ljósi frétta frá Mexíkó um algjörlega súrrealískt ástandið þar, þá er þetta kannski alveg rétt hjá Jóni Halli Stefánssyni.

Þýðing hans á bókinni er glæsileg að mínu mati, þótt ekki hafi ég getað borið saman við frumtextann; en stíllinn og orðfærið eru mjög sannfærandi, háðsk kaldhæðnin, formlegt orðfærið og ekki síst blótsyrði og svívirðingar virka afar vel, það er ekki létt að þýða svona frávikstexta, ef ég má orða það svo, eins og þýðandinn nefnir raunar, en hann hefur náð heildarblæ á skýru máli; ég get ekki nöldrað yfir neinu nema orðinu tönglast sem hann skrifar svo og reyndar er tönnlast á í þessari bók, en orðabókin sýknar hann af öllum villum hvað það varðar, orðið er leyft, eða öllu heldur hefðbundið, undir báðum þessum ritháttum. En þessi stormsveipur af texta kemst vel til skila og er vel einnar kvöldstundar virði.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Eiturlyfjaheimurinn með augum barns