Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Segir ferðaþjónustuna þurfa áframhaldandi stuðning

Mynd með færslu
 Mynd: Markaðsstofa Norðurlands
Framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands segir það draumsýn að ferðaþjónustan geti haldið af stað af krafti eftir covid án þess að fá til þess aukinn stuðning. Það verði átak að fá hjólin til að snúast aftur og mikil samkeppni sé fram undan um ferðamenn.

Faraldurinn hefur höggvið stórt skarð í ferðaþjónustuna, margir hafa gefist upp og hætt rekstri eða stöðvað hann tímabundið.

Draumsýn að halda að allt verði tilbúið

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir því ljóst að þekking hafi glatast og það verði átak að endurreisa greinina. „Ferðaþjónustan þarf stuðning til að fara hratt af stað aftur. Það er draumsýn að halda að menn séu bara tilbúnir og klárir, án þess að fá nokkurn stuðning.“

Því fylgi kostnaður að komast aftur af stað

Stuðningur frá stjórnvöldum hingað til sé fyrst og fremst rekstarrstuðningur sem hafi dugað fyrir hluta af föstum kostnaði og varnað því að fyrirtæki færu hreinlega í gjaldþrot. „Til þess að fara aftur af stað hinsvegar, því fylgir kostnaður. Það þarf að koma öllum græjum í gang aftur. Það þarf að kaupa allskonar leyfi, það þarf að fara í markaðssetningu, það þarf að ráða og þjálfa fólk. Og ef við ætlum að vera með ný verkefni og nýsköpun í ferðaþjónustunni þarf styrki í það.“

Mikil samkeppni framundan

Markaðurinn sé til staðar en það verði mikil samkeppni um ferðamenn og átak að fá fólk til að ferðast um allt land. „Ég myndi segja að það þurfi upphafsstuðning til þess að koma fyrirtækjunum í gang aftur. Ef við ætlum að gera þetta vel, ef við ætlum ekki bara að fara hægt og rólega af stað.“