Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Opna fyrir aðgengi að gosstöðvunum á hádegi

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Gasmengun vegna jarðeldanna í Geldingadölum berst líklega yfir vestanverðan Reykjanesskaga í dag. Hjálmar Hallgrímsson, vettvangsstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir fáa vera við gosstöðvarnar núna en svæðið verður ekki opnað fyrir aðgengi almennings fyrr en á hádegi.

„Það er ekkert lokað svæðið þannig lagað. Það sem við viljum tryggja með því að vera með opið frá tólf til tólf er að vera með lágmarksgæslu á svæðinu þannig að það sé hægt að hjálpa fólki ef það lendir í einhverju. Utan þess tíma er þetta bara útkall ef eitthvað gerist hjá fólki,“ segir Hjálmar.

Í dag berst gasmengun líklega yfir vestanverðan Reykjanesskaga, frá Vogum vestur að Höfnum. Á þessu svæði eru líkur á að loftgæði verði óholl fyrir viðkvæma. Þá getur gasmengun við gosstöðvarnar alltaf farið yfir hættumörk.

„Það er hæg austanátt og það þarf að varast hvernig menn komast að þessu. Þetta er orðið ansi stórt svæði. Ef menn eru réttu megin þá ættu þeir að sleppa við gas en það er meira og minna gasmengun þarna á öllu svæðinu,“ segir Hjálmar.