„Miklu meira sannfærandi áætlanir“ varðandi bóluefnin

Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir ákveðin tímamót hafa orðið hjá bóluefnaframleiðendum og stjórnvöld sjái nú „miklu meira sannfærandi áætlanir“ frá þeim. Þetta geri ríkisstjórninni kleift að horfa til lengri tíma. „Við vitum hvar við teljum að við verðum stödd um mitt ár.“ Hún sagðist þó ekki öfunda marga kollega sína af þeirri stöðu sem þeir væru í dag; að vera fyrst núna að opna skóla eða hleypa fólki í klippingu.

Þetta sagði Katrín í óundirbúnum fyrirspurnatíma þar sem Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, spurði hana hvort von væri á svipuðum áætlunum og Danir og Norðmenn hafa gert um afléttingu takmarkana eftir því sem bólusetningu fleygir fram.

Þorbjörg benti á að í Danmörku ætti að taka ákveðin skref í átt til fyrra lífs þegar búið væri að bólusetja 50 ára og eldri.  Norðmenn hefðu kynnt áætlun sína sem tæki gildi í skrefum til júníloka.  Þetta væru áætlanir sem væri ætlað að veita ákveðinn fyrirsjáanleika og spurði hvort von væri á einhverju slíku frá ríkisstjórninni. „Einhverja sýn um það hvaða árangri þurfi að ná með tilliti til aldurs og annarra þátta; hvað gerist ef það tekst hvað gerist ef það tekst ekki og svo framvegis.“

Katrín sagði rétt að nágrannalöndin væru að kynna slíkar áætlanir sem miðuðu flestar að því að stefna í það ástand sem Ísland væri í nú þegar.  Verið væri að heimila klippingu og opna skóla. „Við heyrum það líka í fréttum frá Bretlandi þar sem hefur gengið vel í bólusetningum en um leið hefur samfélagið nánast verið lamað mánuðum saman.“

Ákveðin tímamót hefðu orðið hjá bóluefnaframleiðendum sem gætu nú sýnt fram á meira sannfærandi áætlanir um afhendingu bóluefnis. Það gerði stjórnvöldum kleift að horfa til lengri tíma. 

Þorbjörg tók undir með forsætisráðherra að staðan væri góð hér á landi.  „Þá myndi ég segja þess þá heldur sé svigrúm og rými til að ramma inn hver skrefin séu og hvenær þau verði stigin.“

Katrín minnti á að margt sem hefði gerst í þessum faraldri hefði kennt manni að vera með alla fyrirvara á lofti, alltaf.  Erfitt væri að gera áætlanir fram í tímann án þess að vera með þá í huga. “Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég er mjög glöð að standa ekki þeim sporum sem margir kollega minna standa í; að vera jafnvel núna fyrst að opna skóla eða hleypa fólki í klippingu.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV