Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ísraelsk netárás á kjarnorkuver í Íran

12.04.2021 - 05:46
epa09126291 A handout picture made available by the Iranian presidential office shows a part of an exhibition of nuclear achievement on the occasion of Iran Nuclear Technology Day, in Tehran, Iran, 10 April 2021. According to Isna news agency, Rouhani said that 'US and west owe us about nuclear deal and they must make it up', referring to the sanctions against the country over Iran's disputed nuclear programm.  EPA-EFE/IRAN PRESIDENT OFFICE HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - IRAN PRESIDENT OFFICE
Ísraelsk netárás olli bilun í Natanz-kjarnorkuverinu í Íran í gær. Þetta var fullyrt í ríkisútvarpi Írans í gær og New York Times kveðst hafa fengið þetta staðfest frá leyniþjónustumönnum bæði í Bandaríkjunum og Ísrael.

Ísraelska ríkisútvarpið sagði leyniþjónustuna Mossad hafa gegnt lykilhlutverki í árásinni. Þá sagði ísraelski herforinginn Aviv Kochavi að aðgerðum ríkisins í Miðausturlöndum væri ekki haldið leyndum.

Talsmaður kjarnorkustofnunar Írans sagði snemma í gær að óhapp hafi orðið í kjarnorkuverinu, en vildi ekki hafa fleiri orð um það. Síðar sagði Ali Akbar Salehi yfirmaður kjarnorkumála í Íran að hryðjuverk hafi valdið biluninni. Hann kallaði eftir viðbrögðum alþjóðasamfélagsins og Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, IAEA, vegna árásarinnar.

Auðgun úrans átti að hefjast í kjarnorkuverinu í Natanz um helgina, í trássi við kjarnorkusáttmála Írans við stórveldin. Samninganefndir stórveldanna og Írans eru í Vín í Austurríki, þar sem endurkoma Bandaríkjanna að sáttmálanum er rædd. Stjórn Joe Bidens hefur hug á að ganga aftur inn í hann, eftir að forveri hans dró Bandaríkin einhliða úr sáttmálanum árið 2018. 

Ísraelsmenn eru uggandi yfir kjarnorkubrölti nágranna sinna í Íran. Ríkin hafa eldað saman grátt silfur svo árum skiptir. Lengst af hafa átökin verið tiltölulega óbein víða um Miðausturlönd. Undanfarið hafa þau orðið beinni, með árásum á flutningaskip, aftöku á helsta kjarnorkuvísindamanni Írans, hundruð loftárása á vígasveitir í Sýrlandi sem eru studdar af Íran, og dularfullur olíuleki í norðanverðu Ísrael, sem Guardian segir Ísraelsstjórn hafa talið vera skemmdarverk.