Hondúrsk systir í haldi mannræningja í 12 daga

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna ´78. - Mynd: Kristín María / Aðsend mynd

Hondúrsk systir í haldi mannræningja í 12 daga

12.04.2021 - 13:33

Höfundar

Þorbjörg Þorvaldsdóttir hefur gegnt stöðu formanns Samtakanna '78 síðan árið 2019. Þorbjörg hefur komið víða við og starfar í dag sem íslenskukennari í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði. Á menntaskólaárunum fór Þorbjörg sem skiptinemi til Hondúras og þar kom hún út úr skápnum, þrátt fyrir hætturnar sem steðja að hinsegin fólki í landinu.

Á vefsíðu Samtakanna '78 er Þorbjörgu lýst sem áhugamanneskju um kaffi, hún drekki ótæpilegt magn af þeim góða drykk á hverjum degi, hún elski hlátursköst, ljóð og málfræðilegt kyn. Þar kemur einnig fram að Þorbjörg skilur ekkert eftir nema stöngulinn þegar hún borðar epli. „Það kemur til af leti,” segir Þorbjörg sem var gestur hjá Andra Frey í Sunnudagssögum á Rás 2. „Ég var alltaf í tölvunni í Danmörku vegna þess að ég átti Harry Potter-heimasíðu sem ég bjó til ellefu eða tólf ára.” Allur hennar frítími hafi farið í að viðhalda heimasíðunni. „Ég nennti aldrei að standa upp frá tölvunni. Ég sótti mér kannski epli og nennti svo ekki að henda því, þá tileinkaði ég mér þetta kjarnaát. Mamma gat ekki sett út á það því hún sá ekki stöngulinn. Hún var búin að kvarta mikið undan eplaafgöngunum í kringum tölvuna.”

Þorbjörg fæddist árið 1990 og bjó að eigin sögn út um allt fyrstu átta ár ævinnar, í Reykjavík, Njarðvík, Hnífsdal og á Ísafirði. Þegar hún var átta ára fluttist hún til Garðabæjar og hefur verið þar meira og minna síðan. Hún lýsir sér sem rólegu og þægilegu barni sem sjaldan hafi þurft að skamma. „Ég var ekki prakkari, ég man öll skiptin sem ég gerði eitthvað af mér. Ég man eftir fyrsta skiptinu sem ég laug, ég man eftir skiptinu þegar við hjóluðum út úr bænum á ruslahauga á Ísafirði, ég og vinir mínir. Þannig að þau sitja eftir þessi skammarstrik sem maður gerði.” 

Eftir grunnskóla lá leiðin í Menntaskólann í Reykjavík, þrátt fyrir að hún hafi áður verið harðákveðinn í að fara í annan skóla. „Ég ætlaði alls ekki í MR því pabbi var þar.” Henni hafi fundist of týpískt að feta í fótspor föður síns. Hún hafi þó heillast af skólanum í skólakynningu og náttúrufræðibraut MR varð því fyrir valinu. „Það gekk ekkert voðalega vel. Ég var afburðarnemandi í grunnskóla en svo klessti ég bara á vegg. Ég komst ekki upp með að fylgjast bara með í tímum og mæta svo í próf. Þar þurfti maður að leggja eitthvað á sig og ég kunni það ekki neitt.” 

Menntaskólaárin voru þó góð hjá Þorbjörgu og í MR fékk hún tækifæri til að vera hún sjálf. „Ég upplifði svakalega mikið frelsi að fara í MR. Þetta var allt annað umhverfi en ég hafði verið í,” segir Þorbjörg sem tók virkan þátt í félagslífinu. „Ég var ekkert að læra þarna fyrstu árin.”

Í klóm mannræningja

Eftir nokkur ár í framhaldsskóla tók Þorbjörg svo skyndiákvörðun um að fara sem skiptinemi til Hondúras. Hún vildi fara til Suður- eða Mið-Ameríku og gat valið á milli þriggja landa. Af þeim þremur löndum sem komu til greina vissi hún minnst um Hondúras og það varð því fyrir valinu. 

Fljótlega eftir að hún kom út áttaði hún sig á því að Hondúras væri eitt hættulegasta land í heimi með einna hæstu morðtíðnina. Hún segir íbúa þó hafa verið frábæra og hún hafi verið heppin með fjölskyldu. Í Hondúras eru miklar andstæður, að sögn Þorbjargar. Fólk býr við mikið óöryggi og stéttaskiptingu en mælist þó iðulega á meðal hamingjusamasta fólks í heimi. 

Á meðan að dvölinni stóð komu augnablik þar sem henni fannst hún ekkert stórkostlega örugg. Hún frétti einnig af því að dóttur hjónanna sem hún bjó hjá, það er systur hennar úti hefði verið rænt skömmu áður en Þorbjörg kom út. „Hún lenti í klóm mannræningja og var í þeirra haldi í 12 daga. Sem betur fer slapp hún ómeidd og lifandi úr því. Þau borguðu bara.” Þá hafi systurinni og vinkonu hennar verið sleppt úr haldi ræningjanna.

Fyrstu mánuðina í Hondúras hafði Þorbjörg mikinn frítíma og gat því mikið spáð í sjálfri sér og tilverunni. Þá áttaði hún sig á því að hún væri tvíkynhneigð. „Ég var alltaf algjörlega opin fyrir öllu og hélt að þannig væri það hjá öllum, en það er ekki alveg þannig,” segir hún. „Ég kem út þarna og er að dandalast með bæði stelpum og strákum þarna í Hondúras,” bætir hún við.

Netsambandið var frekar lélegt í Hondúras og því erfitt að vera í miklu sambandi við fjölskylduna á Íslandi. Hún hafi því ekki sagt foreldrum sínum að hún væri komin út úr skápnum fyrr en alveg í lokin á dvölinni. „En ég var búin að koma út á MySpace, var búin að setja að ég væri tvíkynhneigð á prófílinn minn þar og pabbi var búinn að sjá það víst löngu áður en ég hringdi heim.” Hún hafi svo ákveðið að hringja í mömmu sína og segja henni fréttirnar. Í dag er hún þó ekki viss um að það hafi verið hárrétt ákvörðun. „Núna þegar ég er sjálf orðin mamma átta ég mig á því að þetta var ekkert það besta sem ég gat gert henni á þessum tíma. Að vera í landi sem er mjög hættulegt fyrir hinsegin fólk og segja henni að ég sé hinsegin. Þau voru mjög áhyggjufull eftir að þau heyrðu af þessu.”

Rætt var við Þorbjörgu í Sunnudagssögum á Rás 2.

Tengdar fréttir

Innlent

Þorbjörg er nýr formaður Samtakanna '78