Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Gert að greiða 20 milljónir vegna eldgosamyndar

12.04.2021 - 17:04
epa02401091 YEARENDER 2010 APRIL
 Mynd: EPA
Eyrarbúið ehf, sem er í eigu Ólafs Eggertsonar, bónda á Þorvaldseyri, var í Héraðsdómi Suðurlands í síðustu viku dæmt til að greiða Plús film, framleiðslufyrirtæki Sveins M. Sveinssonar, rúmar 20 milljónir vegna heimildarmyndar um gosið í Eyjafjallajökli. Myndin var hluti af sýningu sem Ólafur var með á Gestastofu um hamfarirnar sem léku bú hans grátt árið 2010.

Í dómi héraðsdóms er aðdragandinn að heimildarmyndinni rakinn og hvernig það slettist upp á samstarfið.

Deilurnar má rekja til þess þegar fjölskyldan á Þorvaldseyri fór að huga að því sumarið 2015 að loka Gestastofunni vegna álags og vildi ekki að myndin yrði sýnd eða færi í frekari dreifingu þar sem í henni voru myndir frá erfiðum tímum í lífi hennar. 

Sveinn M Sveinsson, forsvarsmaður Plús film, lýsti því yfir ári seinna að hann ætlaði að selja heimildarmyndina á öðrum vettvangi, annað hvort á DVD-diskum eða með sölu á sýningarrétti til sjónvarpsstöðva.

Fjölskyldan mótmælti þessu og í framhaldinu óskaði Sveinn eftir því að gengið yrði til uppgjörs um tekjur af myndinni ásamt því að sýningu myndarinnar yrði hætt í Gestastofunni.

Gestastofunni var síðan lokað um áramótin 2017-2018, án nokkurs samkomulags.

Sveinn sagði í greinargerð sinni til dómsins að myndin væri sennilega sú vinsælasta í íslenskri kvikmyndasögu. Varla hefðu verið seldir fleiri miðar hér á landi á neina aðra íslenska mynd eða um 450 þúsund.

Hann hefði innt af hendi framlag sem handritshöfundur, leikstjóri, stjórnandi kvikmyndatöku og klippari en verið hlunnfarinn um tekjur. Hljómaði aðalkrafa hans upp á tæpar 80 milljónir.

Ólafur Eggertsson, bóndinn á Þorvaldseyri, taldi sig hins vegar hafa gert upp við Svein að fullu. Hann hefði greitt fyrir gerð heimildarmyndarinnar og þeir hefðu gert með sér samkomulag um skiptingu tekna af sölu DVD-diska. 

Sveinn ætti engan höfundarrétt yfir myndinni heldur hefðu Plús film og Sveinn verið fengnir til að taka upp myndefni í verktöku og klippa það saman í heimildarmynd, allt samkvæmt fyrirmælum hans.

Héraðsdómur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að þeir Ólafur og Sveinn ættu jafnan höfundarrétt. 

Dómurinn benti jafnframt á að gestir Gestastofunnar hefðu notið annarra verðmæta en kvikmyndarinnar með því borga sig inn á Gestastofuna.

Þeir hefðu meðal annars haft aðgang að metnaðarfullri jarðfræðisýningu og fengið skoðunar-og fræðsluferð um Þorvaldseyri.  Þótti því rétt að draga frá 10 prósent vegna fræðsluferðanna og 50 prósent vegna jarðfræðisýningarinnar.

Var Eyrarbúið því dæmt til að greiða Plús film 20 milljónir og 5 milljónir í málskostnað.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV