Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Gasmengun hefur allt að tvöfaldast frá byrjun gossins

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Gasmengun vegna jarðeldanna í Geldingadölum hefur allt að tvöfaldast frá byrjun goss. Hraunelfur virðist ekki renna lengur niður í Meradali.

Opnað var fyrir aðgang almennings að gosstöðvunum klukkan tólf en nokkur fjöldi hefur lagt leið sína þangað í morgun. Þar er austanátt, 8 til 13 metrar á sekúndu, og gasmengun hefur borist til vesturs. Búist er við að mengunin berist til norðvesturs síðdegis í dag.

Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur, segir að hraunflæðið úr jarðeldunum sé stöðugt, um tíu rúmmetrar af hrauni komi upp úr gígunum á hverri sekúndu. „Það virðist ekki hafa orðið nein breyting á framleiðni hvers og eins,“ segir hann.

Hins vegar hefur orðið breyting á hraunrennslinu niður í Meradali. „Sá gígur sem dældi hrauninu niður í Meradali er með cirka fimm rúmmetra á sekúndu, það er nyrsti gígurinn, og það virðist vera sem svo að þegar þetta kom niður í Meradali hefur hraunið náð sinni kjörlengd þannig að aflið á bakvið flæðið hefur ekki kraftinn til að fara með þetta lengra,“ segir Þorvaldur. „Allar leiðir liggja til Geldingadala eins og er,“ segir hann.

Gasmengun berst líklega yfir vestanverðan Reykjanesskaga, frá Vogum og vestur að Höfnum, í dag. Á þessum slóðum eru líkur á að loft verði of mengað fyrir viðkvæma. Þorvaldur segir að um þrjátíu kílógrömm af brennisteinsdíoxíð komi úr gígunum á hverri sekúndu.

„Miðað við það sem var í upphafi þá er óhætt að segja að það hafi sennilega allt að tvöfaldast,“ segir Þorvaldur.