Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gagnrýnir stefnu Dana í innflytjendamálum

Mynd með færslu
Filippo Grandi, framkvæmdastjóri Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.  Mynd: Wikicommons
Vaxandi gagnrýni er á dönsk stjórnvöld fyrir þá ákvörðun í fyrra að ógilda dvalarleyfi flóttafólks frá Sýrlandi, á þeim forsendum að í næsta nágrenni við borgina Damaskus sé öruggt að búa. Ekki er útlit fyrir að gagnrýnin hafi þau áhrif að ákvörðuninni verði breytt. Framkvæmdastjóri Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna lýsti í vikunni yfir áhyggjum af stefnu danskra stjórnvalda og segir stöðuna ekki vera þannig neins staðar í Sýrlandi að óhætt sé að senda þangað fólk.

Innflytjendalög í Danmörku þykja með þeim strangari í Evrópu. AFP fréttaveitan hefur eftir Niels-Eris Hansen, lögmanni sem sérhæfir sig í málaflokknum, að ekkert Evrópuríki hafi innleitt aðra eins stefnu þegar komi að innflytjendum. Fjallað er um málið á vef AlJazeera í dag

Stefnan var innleidd eftir að Jafnaðarmenn, undir forystu Mette Frederiksen, tóku við völdum árið 2019. Málið komst enn á ný í hámæli í vikunni þegar hin nítján ára gamla Aya Abu-Daher, frá Sýrlandi, kom fram í sjónvarpsviðtali. Hún þykir tala mjög góða dönsku og er að útskrifast úr menntaskóla. Til stendur að senda hana og fjölskyldu hennar aftur til Sýrlands. Með tárin í augunum spurði hún hvað hún hefði gert rangt. Hún gengur í skóla í Nyborg og þar hefur skólastjórinn beitt sér í baráttunni við danska ríkið. Dvalarleyfi fjölskyldunnar rann út í lok janúar og var þeim tilkynnt að það yrði ekki endurnýjað.

Sýrlendingar í lokuðum búðum

Slíkt hefur verið tilfellið hjá 189 Sýrlendingum í Danmörku síðan síðasta sumar, eftir að yfirvöld ákváðu að endurskoða mál 500 Sýrlendinga frá Damaskus. Nokkrir þeirra eru sem stendur í lokuðum búðum fyrir innflytjendur. Það þýðir að fólk getur ekki lengur stundað nám eða vinnu. Hansen lögmaður segir í viðtalinu við AFP að fólki sé haldið í búðunum þar til að skrifi undir pappíra þess efnis að það ætli sér að snúa sjálfviljugt til Sýrlands.

Í síðustu viku lýsti framkvæmdastjóri Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, Filippo Grandi, yfir áhyggjum af stöðu mála í Danmörku, jafnvel þó að ekki væri verið að flytja fólk til Sýrlands sem stendur, þar sem ekki sé sterkt stjórnmálasamband milli Danmerkur og Sýrlands eftir áratug af stríðsrekstri í síðarnefnda landinu. Þá sagði Grandi að hann telji það ekki vera svo að aðstæður á neinum svæðum í Sýrlandi séu það góðar og stöðugar að það réttlæti að hætta að veita flóttafólki alþjóðlega vernd.

Samkvæmt dönskum lögum þá eru dvalarleyfi gefin út ótímabundið í þeim tilfellum þar sem aðstæður í heimalandinu eru taldar mjög hættulegar. Það má þó ógilda dvalarleyfin ef aðstæður í landinu þykja hafa batnað. 35.000 Sýrlendingar hafa flúið til Danmerkur.

Yfirvöld ætla ekki að hvika frá stefnunni

Ráðherra innflytjendamála í Danmörku, Mattian Tesfaye, segir í samtali við AFP að stefna danska ríkisins gefi góða raun og að henni verði ekki breytt. Stjórnvöld hafi verið opin varðandi stefnu sína frá fyrsta degi og hafi sagt það skýrt að dvalarleyfi séu tímabundin og fari svo að staðan í heimalandinu batni beri fólki að snúa þangað.