Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Eimskip tapar dómsmáli um dótturfélög í lágskattaríki

Mynd með færslu
Stjórnendur búast við að eftirspurn aukist mikið á innanlandsmarkaði á næstunni.  Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Eimskip verður að greiða skatta af hagnaði dótturfélaga sinna í lágskattaríki í Karíbahafi þrátt fyrir upplýsingaskiptasamninga og starfsemi annarra dótturfélaga sinna í Færeyjum. Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur. Hann hafnaði í síðustu viku kröfu Eimskips um að ákvörðun ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar um endurákvörðun skatta á Eimskip yrði felld niður.

Deilan stóð um skattlagningu tekna af starfsemi dótturfélaga fyrirtækisins í Færeyjum og Antígva og Barbúda. Dómarinn sagði að ef fallist væri á túlkun Eimskips fælist í því misnotkun á reglum til að ná fram skattahagræði. Hann sagði að engin útgerð væri frá Antígva og Barbúda og þar væri hvorki að finna starfsmenn né fasteignir.

„Það fyrirkomulag sem stefnandi hefur komið á fót með stofnun félaga í Færeyjum og í lágskattaríkjum endurspeglar, að mati dómsins, ekki efnahagslegan raunveruleika eða rekstrarlegan tilgang félaganna, heldur virðist það eingöngu sett á fót til að ná fram skattahagræði sem gengur gegn markmiðum og tilgangi laga um tekjuskatt,“ segir í dómnum.

Stjórnendur Eimskips hafa lýst sig ósammála dómnum og hafa boðað áfrýjun til Landsréttar.

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is

Deila skattsins og Eimskips sneri að því hvernig ætti að telja fram og skattleggja tekjur félaga í Antígva og Barbúda. Þau leigðu móðurfélagi sínu í Færeyjum skip án áhafna og þaðan komu allar tekjur félaganna. Eitt dótturfélag hélt utan um hvert skip, tíu árið 2014 og ellefu árið 2015. Móðurfélagið í Færeyjum, sem leigði skipin af dótturfélögum sínum á Antígva og Barbúda, er dótturfélag dótturfélags dótturfélags Eimskips.

Tekjur af starfsemi dótturfélaganna á Antígva og Barbúda voru ekki taldar fram í skattskilum Eimskips 2014 og 2015. Lögmenn vísuðu til upplýsingaskiptasamnings milli Íslands og eyríkjanna og töldu ákvæði hans losa fyrirtækið undan skattskyldu vegna dótturfélaganna. Því hafnaði skatturinn, yfirskattanefnd og héraðsdómur. Endurákvörðun skatta leiddi til þess að 97 milljóna króna skattstofn myndaðist 2014 í stað 159 milljóna króna taps og yfirfæranlegt tap upp á 285 milljónir féll niður ári síðar. Skatturinn lagði einnig 25 milljóna álag á Eimskip.

Forsvarsmenn Eimskips sögðu jafnframt að ekki ætti að skattleggja dótturfélögin á Íslandi því milli þeirra stæðu færeysk dótturfélög sem væru skattlögð samkvæmt þarlendum reglum. Þessu vísaði héraðsdómari á bug og sagði óumdeilt að hagnaður dótturfélaganna í Karíbahafi hefði ekki verið skattlagður í Færeyjum. „Þá verður ekki talið að skattlagning móðurfélagsins í Færeyjum með svokallaðri tonnaskattlagningu breyti þessari niðurstöðu eða hvernig tekjur móðurfélagsins í Færeyjum vegna tímaleigu skipanna eru að öðru leyti skattlagðar í Færeyjum.“

„Aðalatriðið er að umrædd félög voru skráð með heimilisfesti í umræddum lágskattaríkjum og í Færeyjum þar sem enginn tekjuskattur var greiddur af hagnaði þeirra,“ segir í dómnum. Þar kemur fram að félögin falli undir óbeint eignarhald Eimskips og fyrirtækinu hafi borið að gera grein fyrir tekjum í skattskilum sínum.

Merkið yfir inngangi Héraðsdóms Reykjavíkur að vetri til.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir