Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

2,4 milljarðar í sumarstörf fyrir námsmenn

12.04.2021 - 12:10
Mynd með færslu
 Mynd: Brodie Vissers - burst.shopify.com
Stjórnvöld ætla að verja um 2,4 milljörðum króna í í átaksverkefni til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn. Stefnt að því að til verði um 2.500 störf fyrir námsmenn 18 ára og eldri. Í fyrra var ekki ráðið í öll störfin sem auglýst voru í sams konar átaki

Átaksverkefnið er í samvinnu við opinberar stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök. Í tilkynningu sem birt var fyrir helgi kemur fram að hverjum námsmanni sem ráðinn verði í gegnum þetta úrræði fylgi styrkur sem nemi dagvinnulaunum að hámarki 472 þúsund krónur auk framlags í lífeyrissjóð. Ráða á námsmenn til starfa í tvo og hálfan mánuð í sumar. 472 þúsund er hámark tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Í fyrra var svipað átak og þá sá Vinnumálastofnun um framkvæmdina. Þar á bæ búast menn við að svipaður háttur verði hafður á en ekki er búið að útfæra hvernig. 

206 verkefni fá fé úr Nýsköpunarsjóði námsmanna

Þegar er búið að úthluta 311 milljónum úr Nýsköpunarsjóði námsmanna til um 206 verkefna. Ráða á 351 námsmann í grunnnámi og á meistarastigi í rannsóknar og þróunarverkefni sem sótt er um sérstaklega og eru þau mjög fjölbreytt. 10 erfiðustu atriði í íslensku útskýrð á Youtube, hreinsun úr skiljuvatni Bjarnaflagsvirkjunar, drónamælingar á gróðurlendi, sögur af íslenska fjárhundinum, hættumat ferðamannastaða, kostnaðarvirknigreining á krabbameinsskimunum og þróun á matstæki á viðhorfum til trans fólks, svo örfá séu nefnd.

Þúsundir sóttu sumarnámskeið í fyrra

Þá á að verja 650 milljónum til að tryggja framboð á sumarnámi, hálfur milljarður til háskóla og 150 í nám á framhaldsskólastigi. Í fyrra sóttu um 650 nemendur námskeið á vegum framhaldsskóla og tæplega 5.000 á vegum háskólanna. Nánara fyrirkomulag sumarnámsins á að kynna á næstunni.