Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þykkt öskulag eftir eldgos á St. Vincent

11.04.2021 - 19:25
Mynd: EPA / EPA
Þykkt öskulag þekur nú stóran hluta Karíbahafseyjunnar St. Vincent eftir eldgos sem hófst þar á föstudag. Um sextán þúsund hafa þurft að yfirgefa heimili sín.

Þetta er ekki úrkoma sem sjá má á myndskeiði SKY fréttastöðvarinnar hér að neðan. Þetta er aska sem hefur sáldrast yfir stóran hluta eyjunnar St. Vincent í Karíbahafinu síðan í gær.

Askan kemur úr eldfjallinu La Soufriere, þar sem eldgos hófst á föstudag. 

Á St. Vincent búa um eitt hundrað þúsund manns. Eyjan á sífellt meiri vinsældum að fagna sem ferðamannastaður. Ekki minnkaði áhuginn eftir að kvikmyndin Pirates of the Carabbean: The Curse of the Black Pearl var tekin upp þar. 

Í morgun var rafmagnslaust á stórum svæðum eyjunnar. Vísindamenn spá því að eldgosið muni halda áfram einhverja daga, og jafnvel vikur.