Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Segir einhvern hafa opnað inn í brunninn

11.04.2021 - 15:14
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bjargaði í gærkvöld konu upp úr vatnsbrunni við Lágafell í Mosfellsbæ. Bæjarstjórinn í Mosfellsbæ segir greinilegt að einhver hafi opnað brunninn. Hann hafi ekki staðið opinn.

Að sögn varðstjóra Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu vildi óhappið þannig til að konan hélt að hún væri að stíga á brunnlok, en það reyndist klaki sem brotnaði undan henni og féll hún þar með ofan í ískalt vatnið.

Hún hafði verið í brunninum í um tíu mínútur þegar slökkviliðið kom á vettvang. Hún var orðin köld og henni verulega brugðið eftir óhappið.  Konan var ekki ein á ferð en samferðafólk hennar náði henni ekki upp úr brunninum. Fólkið var á göngu við brunninn sem stendur við bílastæðið við Lágafellskirkju í Mosfellsbæ. Skúrinn var notaður sem miðlunarlón í vatnsveitu áður fyrr og er vatnið á annan meter á dýpt inni í kofanum. 

Brunnurinn er við gamalt aflagt vatnsból sem tilheyrði áður bújörðinni á Lágafelli að sögn Haraldar Sverrissonar bæjarstjóra í Mosfellsbæ. Vatnsbólið sé á einkajörð en starfsmenn bæjarins hafi verið kallaðir til í kjölfar slyssins til að loka svæðið af. Hann segir að brunnhúsið hafi verið lokað en einhver hafi opnað það. Haft verði samband við eigendur þess í kjölfarið. 

Bjarni Ásgeirsson deildarstjóri þjónustustöðvar Mosfellsbæjar var kallaður til í kjölfar slyssins í gær. Hann segir að til þess að komast að vatninu þurfi að klifra yfir vegg innan við dyrnar. 

„Það virðist einhver hafa farið inn í þetta brunnhús. Við fengum tilkynningu um átta leitið frá lögreglunni um að það hefði orðið hérna einhverskonar slys. Við mættum bara strax á staðinn, þá voru nú allir farnir af vettvangi svo að við bara lokuðum því,“ segir Bjarni.

Hefur þetta hús staðið lengi opið?

Nú vitum við það ekki. Húsið er á einkalandi og einkaeign þannig að þetta er ekkert sem við kemur Mosfellsbæ, en við þekkjum það ekki hvort að þetta hafi staðið opið lengi,“ segir Bjarni.

Hann segir að framtíð hússins sé óráðin. Það sé í höndum þeirra sem það eiga að ráða örlög þess.

„En einhverjar ráðstafanir þarf að gera,“ segir Bjarni. 

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV