Nær öll þjóðin hafði frétt af gosinu á miðnætti

Mynd: Guðmundur Bergkvist / Guðmundur Bergkvist
85 prósent landsmanna hafði frétt af eldgosinu við Fagradalsfjall þremur klukkustundum eftir að það hófst. Boðleiðirnar voru þó misjafnar. Um þriðjungur landsmanna hefur annað hvort gert sér ferð að gosstöðvunum, eða séð bjarmann af hrauninu. Tíðindin virðast hafa náð álíka hratt til allra, óháð aldri, búsetu eða menntun. Meirihluti aðspurðra, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallups, segist þó ekki ætla að sjá gosið með berum augum.

Tíðindin bárust jafn hratt til allra 

Jarðskjálftahrinan á Reykjanesskaga hófst með látum miðvikudagsmorguninn 24. febrúar. Upphaflega var talið að þarna væri nokkuð eðlileg virkni á þverbrotabeltinu, en viku inn í skjálftana fór óróapúls að mælast og kvikan að brjótast í átt að yfirborðinu. 

Eldgosið við Fagradalsfjall hófst klukkan 20:45, föstudagskvöldið 19. mars. Samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup hafði nær öll þjóðin, 85%, frétt af því þremur klukkustundum seinna á einn eða annan hátt. Tíðindin virðast hafa náð álíka hratt til allra, óháð aldri, búsetu eða menntun. En upplýsingaleiðirnar voru misjafnar.

Samtöl við aðra algengasta boðleiðin 

Tæp 40 prósent fréttu fyrst af eldgosinu við Fagradalsfjall frá annarri manneskju, en tæpur fjórðungur heyrði af því í sjónvarpinu. Um þrjátíu prósent lásu um eldgosið á netinu, á samfélags- eða fréttamiðli og um fimm prósent heyrðu það í útvarpinu. Þau yngstu heyrðu flest af því frá annarri manneskju, en sú boðleið var sjaldgæfust meðal 60 ára og eldri. Svo snúast hlutföllin alveg við varðandi sjónvarpið, sem var óalgengasta svarið hjá þeim yngstu, en algengast hjá þeim elstu. 

Margir hafa farið en flestir ætla ekki 

Vikuna 1. til 7. apríl hafði 16 prósent þjóðarinnar gert sér ferð að gosstöðvunum og annar eins fjöldi séð bjarmann af því. 68 prósent landsmanna, um 250.000 manns, hafa ekki séð gosið með berum augum. 
Tæp 40 prósent segjast munu gera sér ferð að gosinu, þau eru fleiri sem ætla sér það ekki. 

„Ég bara hef enga þörf til þess. Ég get séð allt sem ég þarf að sjá á síðunni.” 
- Logi Linnet

„Ég ætla að fara á næstunni.”
- Theódóra Björk Ágústsdóttir 

„Mig langar bara alls ekki neitt. Ég sé þetta bara í sjónvarpinu hjá ykkur.”
- Albert Haraldsson

„Ég fór núna fyrir tveimur eða þremur vikum síðan. Þegar þetta var ekki eins mikið og núna. Það var mjög fínt.”
- Markús Marteinn Rúnarsson

„Mig langar ekkert að fara. Þetta er bara hættulegt.” 
- Guðmunda Helgadóttir

Myndir í upphafi eru frá Björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík.