Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Markmið um bólusetningu gætu náðst fyrir miðjan júlí

Fyrstu skammtar af bóluefni Janssen eru væntanlegir hingað til lands á miðvikudaginn. Miðað við fyrirliggjandi dreifingaráætlanir lyfjaframleiðenda og væntingar um aukna framleiðslu ætti markmið stjórnvalda um að bólusetja 280 þúsund manns fyrir miðjan júlí að nást. 

Bólusetningar hófust í lok desember, fóru hægt af stað en hafa tekið við sér undanfarnar vikur. Á fimmtudaginn fengu 6.600 manns vörn gegn COVID-19 og er það mesti fjöldi sem bólusettur hefur verið á einum degi til þessa. 

Nú þegar hafa tæplega 59 þúsund manns fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni. Það gera 21% af þeim sem stendur til að bólusetja. Af þeim er tæplega helmingur fullbólusettur.

Til að markmiðið náist þarf að bólusetja 221 þúsund manns að minnsta kosti einu sinni næstu þrjá mánuði, en misjafnt er eftir efnum hversu langur tími líður á milli bólusetninga. Framvindan veltur svo á framleiðendum en aðeins Pfizer hefur gefið út dreifingaráætlun til lengri tíma. 

Stjórnvöld segja 37 þúsund skammta væntanlega í apríl og munu 15 þúsund þegar komnir til landsins. Að því gefnu að búið sé að nota tvo þriðju af þeim skömmtum munu 27 þúsund til viðbótar fá bóluefni Pfizer út þennan mánuð. 

Þrátt fyrir fréttir af töfum hjá AstraZeneca segja sóttvarnalæknir og dreifingaraðili bóluefnisins að dreifingaáætlunin standist. Frá og með 12. apríl er von á 16 þúsund skömmtum fram til loka mánaðar.

Í dag var svo staðfest að von væri á fyrstu skömmtunum af bóluefni Janssen, en aðeins þarf einn skammt af því bóluefni til að veita fulla vörn. Fyrri sendingin, 2.400 skammtar kemur á miðvikudaginn og sú síðari þann 26. apríl. 

Moderna sendir 2.400 skammta aðra hverja viku. Von er á næstu sendingu í vikunni og síðan í kringum mánaðamót. 

Ef allir þessir skammtar færu til fyrstu bólusetningar gætu um 111 þúsund orðið bólusett næstu mánaðamót en raunveruleg framvinda ræðst af samsetningu fyrstu og annarrar  bólusetningar

Til viðbótar við þetta bætast við 54 þúsund skammtar af Pfizer í maí og 63 þúsund í júní. Aðrir framleiðendur en Pfizer þurfa þess vegna að tryggja að minnsta kosti 52 þúsund skammta svo að bólusetningaáætlunin gangi upp. 

Það er því ástæða til hóflegrar bjartsýni um að 280 þúsunda markmiðið náist á tilsettum tíma, einkum í ljósi þess að Pfizer, Astra Zeneca og Moderna hafa tilkynnt um nýja framleiðslustaði fyrir Evrópu og því líklegra að magnið aukist fremur en hitt.