Koddahjal um húsgögn

Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn

Koddahjal um húsgögn

11.04.2021 - 20:00

Höfundar

Hjónin Ágústa Magnúsdóttir og Gústav Jóhannsson kynntust í Danmörku þar sem þau voru við nám og störf. Hann er lærður húsgagnasmiður og hún hugbúnaðarhönnuður. Þau fóru fljótlega að búa til sín eigin húsgögn fyrir litla íbúð sem þau bjuggu í og í dag reka þau hönnunarfyrirtækið Agustav.

Árið 2011 eignuðust þau sitt fyrsta barn og Ágústa var að vinna hjá Danske Bank. Þau ákváðu að klippa á öryggisnetið sem þau höfðu komið sér upp í Danmörku og flytja til Ítalíu, lengst upp á fjall, í pínulítið þorp þar sem enginn talaði ensku. 

„Við vorum með alls konar hugmyndir og sáum fyrir okkur að við gætum gert þetta allt saman þarna. Svo gekk það ekki alveg eins og við höfðum séð fyrir okkur. Bæði voru tungumálaörðugleikar og lógistískir örðurleikar. Hvar kaupum við við? Hvar fáum við skrúfur?“

Annað barnið kom svo undir og fjölskyldan ákvað að flytja heim til Íslands, þar sem þau höfðu aldrei búið saman. Þá fóru hlutirnir að ganga hraðar, þau opnuðu litla verslun á Skólavörðustíg og eru í fyrsta sinn farin að lifa af rekstrinum.