Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Geta aðeins uppfyllt útivistarákvæðið að hluta

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Forstjóri Sjúkratrygginga Íslands segir ekki hægt að leyfa öllum gestum sóttvarnahúsa að njóta útivistar þegar þeir vilja. Nýtt sóttvarnahótel verður líklega opnað í Reykjavík í dag því Fosshótelið stóra við Þórunnartún er að fyllast.  

 

Tryggð útivist þegar hægt er í samráði við starfsmenn

Sjúkratryggingar og Rauði krossinn skiluðu sóttvarnalækni tillögum að því í gær hvernig mætti uppfylla nýja sóttvarnareglugerð sem kveður á um að gestir sóttvarnahúsa fái að fara út undir bert loft á hverjum degi. Tillagan liggur nú á borði ráðherra. „VIð leggjum til að gestum verði tryggð útivist eftir því sem hægt er á hverjum tíma í samráði við starfsmenn,“ segir María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga. Gestir hringi sem sagt í mótttökuna, óski eftir að fá að fara út og svarið verði eftir atvikum já eða nei. „Það er ekki hægt að tryggja að fólk fái að fara út alla daga,“ segir María.  

Svarið fer eftir því hvort það eru gestir að koma eða fara af hótelinu, gestir mega nefnilega ekki hitta aðra gesti og það er bara einn inngangur. 

Nýtt sóttvarnahús opnað

Stefnt er að því að opna nýtt sóttvarnahús, á hótel Barón í Reykjavík í dag, því Fosshótelið við Þórunnartún var við það að fyllast í gær. Á því eru hvorki meira né minna en 320 herbergi. 

Aftur að teikniborðinu ef ráðherra samþykkir ekki tillöguna

María segir auðvelt að uppfylla ákvæði reglugerðar um útivist í sóttvarnahúsinu í Hallormsstað, enda fáir þar og stórt útivistarsvæði í kring, í Reykjavík sé þetta erfiðara. Heilbrigðisráðherra er nú að fara yfir tillögur Sjúkratrygginga og Rauða krossins, María býst við því að fá svar fljótlega. En hvað ef ráðherra telur ekki nóg að ákvæðið sé aðeins uppfyllt að hluta og eftir hentugleika og fellst ekki á tillöguna?  „Þá þurfum við bara að fara aftur að teikniborðinu,“ segir María.