Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Gasmengun leggur yfir norðanverðan Reykjanesskaga

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Gasmengunin við og frá gosstöðvunum í Geldingadölum er svipuð og í gær. Samkvæmt spálíkani Veðurstofu Íslands eru líkur á gasmengun milli Voga og Hafna í dag. 

Á þessu svæði eru líkur á að loftgæði verði óholl fyrir viðkvæma.

Salóme Jórunn Bernharðsdóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands mengunina liggja yfir norðvestanverðan Reykjanesskagann í dag, frá Vogum yfir í Hafnir, en dreifist með deginum og fram á kvöld til vesturs og suðvesturs.

Næstu nótt verður mengun ríkjandi á óbyggðum hlutum Reykjanestáar. „Þá verður einhver möguleg gasmengun á morgun í kringum Hafnir og Reykjanesbæ.“ Höfuðborgarsvæðið virðist sleppa við gasmengun.

„Það virðist sleppa í bili svo er spurning hvernig framhaldið er á þriðja degi en eins og staðan er núna eru engar líkur á gasmengun á höfuðborgarsvæðinu næstu tvo daga,“ segir Salóme.

Jörð skelfur nokkuð á landssvæðinu umhverfis gosið að sögn Salóme en það er innan skilgreinds hættusvæðis. „Það eru ekki stórir skjálftar en þeir eru að dreifa sér nokkuð jafnt, í norðaustur nær Keili en þeir eru á þó nokkru dýpi allflestir. Kvikugangurinn er enn að láta á sér kræla.“ 

Fyrir einni eða tveimur vikum skalf jörð við Lambafell og Raufarhólshelli. Salóme segir þá skjálfta eðlilegan hluta af bakgrunnsvirkni á svæðinu. „Það má búast við skjálftum á þessu svæði og við höfum séð þá áður þarna. Þetta tengist þessu svæði sem er bæði Reykjanesið og Suðurlandið.“