Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Féll ofan í ískalt vatn í brunni

11.04.2021 - 08:10
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Slökkviliðsmenn komu konu til bjargar í Mosfellsbæ í gærkvöld sem hafði dottið ofan í vatnsbrunn.

Að sögn varðstjóra Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu vildi óhappið þannig til að konan hélt að hún væri að stíga á brunnlokið, en það reyndist klaki sem brotnaði undan henni og féll hún þar með ofan í ískalt vatnið. Hún hafði verið í brunninum í um tíu mínútur þegar slökkviliðið kom á vettvang, og var konan köld og henni verulega brugðið eftir óhappið.

Síðusstu tvö kvöld hefur slökkvilið verið kallað út vegna eldsvoða í útigrillum. Engum hefur orðið verulega meint af né hafa orðið alvarlegar skemmdir á eignum, öðrum en grillum þá, en Slökkviliðið vill benda á að mögulega sé kominn tími á að þrífa útigrillið fyrir sumarið.

Lögregla handtók mann í gærkvöld sem hótaði starfsfólki og viðskiptavinum verslunar. Hann hafði komið við sögu lögreglu fyrr um daginn vegna samskonar hótanna og gistir hann nú fangageymslur. 

Þá hafði lögregla einnig afskipti af nokkrum ökumönnum vegna aksturs undir áhrifum. Einn þeirra reyndi að taka til fótanna þegar lögregla stöðvaði för hans, en hann hafði ekki árangur sem erfiði og var handtekinn. 

 

Að öðru leiti sneru verkefni næturinnar hjá lögreglunni aðallega að hávaðakvörtunum frá nágrönnum.

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV