Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Fæddur til ógnar og skelfingar“

Mynd: Ruv / Ruv

„Fæddur til ógnar og skelfingar“

11.04.2021 - 14:00

Höfundar

Nýlega kom út í íslenskri þýðingu Árna Óskarssonar skáldsagan Hið stutta bréf og hin langa kveðja (Der kurze Brief zum langen Abschied) eftir austurríska Nóbelsverðlaunahöfundinn Peter Handke. Skáldsagan kom fyrst út árið 1972 og greinir frá þrítugum Austurríkismanni sem ferðast um þver og endilöng Bandaríkin eftir erfiðan hjónaskilnað.

Í upphafi bókar verður söguhetjan þess áskynja að fyrrverandi eiginkonan veitir honum eftirför. Honum berst strax í upphafi bókar stutt bréf frá henni sem hún skrifar í New York. Stutta bréfið markar upptaktinn að sögunni, sem er í senn spennusaga og ferðasaga. Við tekur hin langa kveðja þar sem ekki er alltaf ljóst hvort konan er að elta sögumann eða hann að elta hana, hvort að baki býr funheit ást eða óslökkvandi hefndarhugur eftir erfitt samband og sambandsslit. „Hann er með náttúrlega alls konar farangur með sér,“ segir þýðandi verksins, Árni Óskarsson. „Strax á fyrstu blaðsíðunni kemur allt í einu setning þar sem hann víkur sögunni aftur til barnæsku sinnar, og einhverrar skelfingar sem hann upplifði þegar Bandaríkjamenn voru að sprengja Berlín. Og þessi angist, og þessi hræðsla, er þarna undirliggjandi í allri bókinni, ásamt alls konar öðrum hlutum. Alls konar hugmyndir um Bandaríkin sem hann er með í farangrinum líka.“

Draumurinn um Bandaríkin

Bandarísk menning kemur mjög við sögu í verkinu, ekki síst dægurmenning, kvikmyndir, popptónlist og fleira. Vitnað er í kvikmyndir á borð við To Have and Have Not eftir Howard Hawks frá árinu 1944, og The Iron Horse (1924) og Young Mr. Lincoln (1939) eftir John Ford, en á kvikmyndum Fords hefur Peter Handke miklar mætur og kvikmyndaleikstjórinn kemur nokkuð við sögu í verkinu, ekki síst undir lok þess. Peter Handke tilheyrir kynslóð rithöfunda og listmanna frá hinu þýskumælandi málsvæði sem horfði á sínum tíma mjög til bandarískrar menningar. „Kúltúrinn á þessu þýskumælandi svæði var kannski ekki að höfða mikið til þessarar kynslóðar eftir nasistatímann, og þá hitti bandarískur kúltúr beint í mark. Vinur hans Wim Wenders lýsti þessu þannig að Bandaríkjamenn hefðu gert undirmeðvitund okkar að nýlendum sínum. Það voru rosalega sterkar tilfinningar tengdar við kvikmyndir, popptónlist og bókmenntir frá Bandaríkjunum.“ 

Hið stutta bréf og hin langa kveðja er að mati Árna Óskarssonar ekki síst verk sem fjallar um Bandaríkin og sjálfsmynd Bandaríkjamanna, hið ýkta hugarástand sögumanns gerir það þó að verkum að það er ekki alltaf ljóst hvort þau Bandaríki sem hann upplifir og lýsir á blöðum bókarinnar eru raunveruleg eða ímynduð. „Hann er líka mikið að fjalla um ímynd Bandaríkjamanna, hugmyndina um Bandaríkin, drauminn um Bandaríkin. Það er á einum stað þar sem hann fær svona vitrun, hann skynjar þennan draum, og það er eimpípublástur á Mississippi-fljótinu á fljótabátnum Mark Twain, og þá bara allt í einu skynjar hann eitthvað sem hann þekkti bara af afspurn. Og þetta er algerlega tilviljanakennt, allt í einu kemur þessi rosalegi blástur og hann skynjar þennan stóra draum í þessu hljóði.“

Einn frumlegasti og mest ögrandi rithöfundur samtímans

Skáldsagan Hið stutta bréf og hin langa kveðja er fjórða verkið sem kemur út eftir Peter Handke í íslenskri þýðingu. Sjálfur hefur Árni áður þýtt verkið Óskabarn ógæfunnar (Wunschloses Unglück) sem kom út á síðasta ári, í fyrra kom einnig út þýðing Franz Gíslasonar á skáldsögunni Ótti markmannsins við vítaspyrnu (Die Angst des Tormanns beim Elfmeter), bók frá árinu 1970, þessar þrjár bækur koma út hjá bókaforlaginu Uglu. Og árið 1987 kom út Barnasaga (Kindergeschichte), í þýðingu Péturs Gunnarssonar. Peter Handke er einn merkasti höfundur samtímans í Evrópu, almennt álitinn einn mikilvægasti rithöfundur þýskrar tungu um þessar mundir, fæddur árið 1942 í bænum Griffen í Austurríki, skáldagnahöfundur, leikskáld, ljóðskáld, þýðandi, handritshöfundur og kvikmyndagerðarmaður, sem hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir verk sín, og meðal annars verið kallaður einn frumlegasti og mest ögrandi rithöfundur samtímans. Handke fékk Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 2019 og það var eins og margir muna mjög umdeilt val vegna pólitískra skoðana Handkes og skrifa hans um stríðið Balkanskaga á fyrri hluta 10. áratugar síðustu aldar.

Að komast fram hjá klisjunum

Eins og áður segir vinnur Handke að nokkru leyti með formgerð spennusögunnar í verkinu. Frásögnin er drifin áfram af eltingarleik þar sem óhugnaðurinn er ekki langt undan, ógnin og skelfingin. „Þetta er mjög óvenjulegt í höfundarverki Peters Handke að nota svona frásagnarbrellur eins og morðhótanir og hótanabréf en fyrir vikið þá er þessi kona sínálæg í bókinni, og færist nær og nær, sem er mjög skemmtilega gert. En svo er þarna líka fullt af hugmyndum um skynjunina og hvernig maður skynjar heiminn, hvernig maður kemst fram hjá klisjunum og svo framvegis. Og það er dálítið gaman af kaflanum þar sem hann er að ferðast með barninu og mömmu þess. Þetta er barn sem er greinilega á einhverju einhverfurófi og skynjar heiminn allt öðruvísi en við gerum yfirleitt, rétt eins og sögumaður gerir sjálfur.“

Árni Óskarsson er sammála því að endir sögunnar sé í senn einhvern veginn mjög óvæntur en um leið alveg hárréttur, og þar kemur áðurnefndur kvikmyndaleikstjóri, John Ford, mjög við sögu. „Maður gæti aldrei séð fyrir þennan endi út frá því sem fer á undan.“ 

Árni er einn mikilvirkasti bókmenntaþýðandi þjóðarinnar um þessar mundir. Auk verka eftir Peter Handke hefur hann þýtt verk eftir höfunda á borð við Vladimir Nabokov, Salman Rushdie, Ian McEwan, Bruce Chatwin, Orhan Pamuk, Walter Benjamin og Robert Louis Stevenson. Og í haust er væntanleg splúnkuný þýðing Árna á skáldsögunni Drag þinn plóg yfir bein hinna dauðu eftir pólska Nóbelsverðlaunahöfundinn Olgu Tokarczuk.

Rætt var við Árna Óskarsson í Víðsjá. 

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Stoppað upp í eitt af götum íslensks menningarrefils

Bókmenntir

Deilur um Peter Handke – gömul saga og ný

Bókmenntir

Peter Handke: „Ég hata blaðamennsku!“

Bókmenntir

Nóbelsverðlaun vekja undrun og reiði