Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ekkert hefur bólað á nýju rakningarappi

Mynd með færslu
 Mynd: Max Pixel
Tafir hafa orðið á útgáfu uppfærðs smitrakningarapps Landlæknisembættisins. Persónuvernd segir appið hafa skilað sér seinna þangað en Landlæknisembættið hélt fram opinberlega. Líklega styttist þó í útgáfu þess. 

 

Safnar gögnum um síma í kringum þig

Þann 19. mars tilkynnti Landlæknisembættið að von væri á nýrri og uppfærðri útgáfu af smitrakningarappinu Rakning-C19. Það átti að kynna það í lok marsmánaðar. Svo leið og beið og ekkert fréttist af forritinu. 
Appið er á ábyrgð sóttvarnalæknis sem heyrir undir Embætti landlæknis. 

Nýja útgáfan byggir á Bluetooth-tækni og safnar gögnum um hvaða símar, sem einnig þurfa að vera með forritið, hafi verið í tveggja metra fjarlægð frá síma þess sem er með appið í meira en fimmtán mínútur. Eigendur símanna eru þá látnir vita ef einhver sem hefur verið nálægt þeim greindist með kórónuveiruna. Ef faraldurinn er mjög útbreiddur á að vera hægt að stækka svæðið sem appið nær til, láta til dæmis alla sem voru í fimm metra fjarlægð frá þeim smitaða í tíu mínútur vita. Fólk sem var í sömu búð, til dæmis.

Núverandi útgáfa byggir á GPS- hnitum og safnar einungis upplýsingum um hvert sá sem er með appið hefur farið síðustu tvær vikur, ef eigandi símans greinist með veiruna geta upplýsingarnar hjálpað honum að rifja upp hverja hann hefur hitt. 

Appið skilað sér seint í yfirferð til Persónuverndar

Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis segir að útgáfa appsins hafi tafist vegna þess að ákveðið hafi verið að verja lengri tíma í öryggisúttekt. Embættið hafi ekki viljað ýta á eftir Persónuvernd. 
Landlæknisembættið hélt því fram að Persónuvernd hefði fengið forritið til yfirferðar þann 19. mars, en stofnunin þarf að taka afstöðu til þess hvort notkun þess standist persónuverndarlög. Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir að formleg umsókn hafi ekki borist frá Landlækni fyrr en nokkru eftir að embættið tilkynnti að Persónuvernd væri farin að skoða appið. Stofnunin er þó að leggja lokahönd á athugun sína og Helga býst við því að ljúka henni á morgun, í framhaldinu geti Landlæknir gefið forritið út. 

Þau sem eru með appið í símum sínum þurfa að samþykkja uppfærsluna. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV