„Ég er með ógeðslega lélegt sjálfsmat“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég er með ógeðslega lélegt sjálfsmat“

11.04.2021 - 09:00

Höfundar

„Ég hef verið í felum heima hjá mér og hef notið þess að byggja mig upp andlega og ná mér í náttúru,“ segir Birgitta Jónsdóttir skáld og fyrrverandi alþingismaður. Hún hefur með hjálp starfsendurhæfingarsjóðs Virk tekist að kúpla sig út og byggja sig upp en hún kveðst hafa rekist á vegg eftir miklar annir.

Birgitta Jónsdóttir skáld og fyrrverandi alþingismaður ákvað fyrir nokkru að draga sig algjörlega úr sviðsljósinu, taka því rólega og safna kröftum eftir mikla þeysireið. Hún hefur undanfarið æft sig í að láta ekki í ljós skoðanir sínar þó þær séu sannarlega sterkar. „Eftir allt þetta áreiti og þessa brjáluðu vinnutörn að búa til tvo flokka úr engu og koma þeim inn á Alþingi, allt í kringum Wikileaks og þessa þingsályktun um að við myndum taka okkur afgerandi alþjóðlega sérstöðu varðandi upplýsinga- og tjáningafrelsi. Ég krassaði bara algjörlega,“ segir hún í samtali við Síðdegisútvarpið á Rás 2. „Ég hef oft klárað batteríin en ég hreinlega eyðilagði batteríið mitt og bara, maður fattar ekki þegar maður er á stöðugri keyrslu í átta ár og stoppar aldrei, ég tók aldrei frí.“

Hefur verið í felum heima hjá sér

Hún ákvað eftir að finna að öll orka væri uppurin að þiggja hjálp sem hún fékk hjá starfsendurhæfingarsjóði Virk. „Alltaf þegar ég hef orðið pínu þekkt á Íslandi hef ég flutt í burtu. Ég lærði það af mömmu sem var þekkt þegar ég var unglingur að það verður mikið áreiti og krafa á mann þegar maður er svona opinber persóna. Það getur eyðilagt mann og maður getur orðið algjör egóisti og fengið ranghugmyndir um sjálfan sig.“

Oftast hefur hún brugðið á það ráð að fara til útlanda til að endurheimta sjálfið og núllstilla sig en nú lét hún Ísland duga. „Ég hef verið í felum heima hjá mér og hef notið þess að byggja mig upp andlega og ná mér í náttúru. Reyna að verja tíma með þessu stórkostlega landi okkar og einhvern veginn afrugla mig. Það hefur tekist mjög vel og ég er tilbúin að koma aftur úr hellinum.“

Heimildarmynd og ljóðabók í vændum

Hún hefur afþakkað flest viðtöl sem hún hefur verið boðuð í og takmarkað tjáningu á samfélagsmiðlum. En nú er hún reiðubúin að láta ljós sitt skína og brátt fær hún að gera það á hvíta tjaldinu því að seinna á þessu eða næsta ári kemur út heimildarmynd um hana eftir Judith Ehrlich. „Vð erum búin að vera að vinna í þessari heimildarmynd ógeðslega lengi og hún er alltaf að lenda í hnökrum. Það er stundum svolítið erfitt að gera heimildarmynd um konur sem passa ekki í neina kassa,“ segir Birgitta glettin.

Á döfinni er líka að gefa út ljóðabók sem hún lýsir sjálfri sem mikilli drápu. „Þetta er drápa á allt þetta kerfi og mótmælin, þessa svokölluðu byltingu og allt þetta stöff,“ segir hún.

Vinnur í lélegu sjálfsmati

Í Virk hefur Birgitta ekki tekið mikinn þátt í hópastarfi en þar er hún með ráðgjafa og hefur fengið sálfræðitíma. „Það eru margir sem vita það ekki en það er til svolítið sem heitir imposter syndrome þar sem maður upplifir að maður hafi aldrei rétt á að vera að gera eitthvað eða sérfræðingur í einhverju,“ segir hún. „Ég hef ógeðslega lélegt sjálfsmat og þarf að vinna með það það er svo lélegt.“

Sú mynd sem flestir Íslendingar hafi af henni lýsi henni ekki vel. „Það sem gerist þegar maður verður opinber persóna er að þá er búin til mynd af manni sem maður er ekki endilega, og myndin af mér var rosalega skökk miðað við hver ég í rauninni er.“

Tekur ekki eftir að fólk viti hver hún er

Í endurhæfingu hefur hún ekki tekið þátt í hópastarfi enn þá en hún óttast ekki augngotur annarra í slíkum aðstæðum. „Ég er svo heppin með það að ég tek ekki eftir að fólk viti hver ég er, ég er ekkert að pæla í því og finnst ég ekkert merkilegri en hver annar,“ segir hún. „Ég er heppin með að skynja hvenær rétti tíminn er til að gera hluti og það er eitthvað sem maður getur þróað og þroskað með sér. Maður þarf að treysta innsæinu og þora að gera hluti sem aðrir segja að sé ekki hægt. Það er það sem mótiverar mig mest.“

Aumingja sóttvarnalæknir látinn vera andlit fyrir þetta klúður

Þó Birgitta básúni ekki skoðanir sínar þá hefur hún þær sannarlega og henni blöskrar yfir atburðum síðustu daga í sóttvarnaaðgerðum. „Bara allt ruglið í kringum síðasta mánuð, hvað er í gangi, hvaða rugl er þetta? Það vissu allir að lögin myndu ekki halda og það er verið að láta aumingja sóttvarnalækni vera andlit fyrir þetta klúður,“ segir hún ómyrk í máli. Stjórnvöld séu ósamstíga og óskýr. „Ég get alveg skilið skítamix og haft ákveðna sympatíu gagnvart því en ekki að verið sé að búa til óskýrleika.“

Meira að segja Svandís Svavarsdóttir svarar ekki spurningum

Þjóðina segir hún hafa staðið sig vel í sóttvörnum en að ákvarðanir stjórnvalda síðustu vikur grafi undan þeirri samstöðu sem hún hafi sýnt. „Þá er ég ekki að tala um dómstóla, dómstólarnir eru bara algjörlega annað júnit og eiga ekki að vera háðir neinum af hinum valdastólpum samfélagsins, þeir verða að vera óháðir. Og ef þeir sjá brotalamir þá eiga stjórnmálamenn að segja úff, mér þykir þetta mjög leitt og við hefðum átt að vera skýrari. En í staðinn svarar meira að segja Svandís Svavarsdóttir ekki spurningum fjölmiðla.“

Ekki tilbúin að snúa aftur í stjórnmál

Þrátt fyrir sterkar skoðanir hefur hún enn ekki íhugað að snúa aftur í stjórnmál. „Ég er alls ekki á þeim stað enn þá og ég hef ekki áhuga á að fara inn í stjórnmál í kringum þessar kosningar. Ég held að næsta kjörtímabil verði stutt og skrýtið.“ Hún útilokar þó ekki að snúa aftur fyrir til dæmis þarnæsta kjörtímabil. „Ég veit það ekki, kannski langar mig að gera allt annað.“

Lufsast ekki inn á þing til að ná athygli á hálftíma hálfvitanna

Helst af öllu vill hún gera það sem skilar einhverju inn í samfélagið en ekki vera á þingi til að sýna sig. „Ég er ekki að sækjast eftir að fara á Alþingi bara til að lufsast þar einhvern veginn og reyna að ná athygli á hálftíma hálfvitanna, eins og Þráinn Bertelsson skýrði þennan hálftíma,“ segir hún. „Þetta er mjög góður hálftími ef maður getur notað hann, ef fólk er ekki að hamast við að vera einhverjir páfuglar.“

Rætt var við Birgittu Jónsdóttur í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.