Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Blóði drifin ævi Chalino Sanchez

Mynd: Musicales de Mexico / YouTube

Blóði drifin ævi Chalino Sanchez

11.04.2021 - 10:00

Höfundar

Mexíkóski tónlistarmaðurinn og söngvarinn Chalino Sanchez gæddi tónlistarsenu Mexíkó nýju lífi og er í dag talinn hetja fólksins í Mexíkó, Bandaríkjunum og víðar, eins konar mexíkóskur Tupac, þótt tónlist þeirra beggja eiga lítið annað sameiginlegt en ofbeldið sem átti sér stað í kringum þá. Chalino var ráðinn af dögunum í Mexíkó árið 1992 og er líf hans enn eitt stórt spurningarmerki. Við könnum þetta merkilega og blóði drifna líf söngvarans Chalino Sanchez.

Þórður Ingi Jónsson skrifar:

Þessi grófgerða rödd sem þið heyrið hér er mexíkóski söngvarinn og þjóðlagahetjan Chalino Sanchez, söngvari og tónlistarmaður sem gæddi tónlistarsenu Mexíkó nýju lífi og varð í leiðinni hetja fólksins.

Líf hans er eitt stórt spurningarmerki. Það getur verið erfitt að komast að sannleikanum í kringum atburðina í lífi hans. Líf hans var nefnilega blóði drifið og hefur sú staðreynd gert lítið nema aukið á vinsældir hans, sérstaklega á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna, ekki síst þar sem undirheimarnir ráða lögum og lofum.

Chalino Sanchez fæddist á litlu bóndabýli í Sínalóa-fylki, í Norðvestur-Mexíkó sunnan landamæranna, yngstur sjö systkina. Hann var sagður uppátækjasamur krakki, dreymdi um að verða frægur söngvari. Fjölskyldan var bláfátæk, æskan erfið.

Á unglingsaldri verður lífssaga hans örlítið dularfull. Það hefur reynst erfitt að fá sum smáatriði staðfest. Sagan segir að þegar Chalino var 15 ára hafi ríkur eiturlyfjabarón í Sínalóa nauðgað systur hans á hrottalegan hátt. Tveimur árum seinna á hann að hafi séð manninn í veislu og skotið hann til bana. Hann á síðan að hafa flúið til Tijuana, við landamæri Kaliforníu og Mexíkó, með ekkert í farteskinu nema skammbyssu og Malverde-keðjuna sína, helgað dýrlingi undirheimanna, Jesús Malverde, goðsagnakenndum karakter sem er eins og Hrói Höttur Mexíkós.

Í Tijuana vann Chalino fyrir sér sem coyote eða sléttuúlfur, maður sem smyglar fólki yfir landamærin til Bandaríkjanna.

Seinna flutti hann sjálfur yfir landamærin og settist að í borg englanna, Los Angeles. Hann vann við uppvask, seldi bíla og líka vímuefni og hélt áfram að smygla fólki yfir landamærin ásamt Armando bróður sínum sem að lokum var myrtur í Tijuana.

Það er sagt að morðið á bróður hans og sársaukinn sem því fylgdi hafi veitt Chalino innblástur til að skrifa sinn fyrsta söng. Þá var hann kominn í fangelsi og það var þar sem tónlistarferill hans hófst. Chalino varð eins konar hirðskáld fanga og hinna útskúfuðu. Ef einhver hafði áhugaverða sögu að segja þá Breytti Chalino henni í corrido, sem eru eins konar mexíkósk söguljóð, hressandi ballöður að hætti þarlendra.

Corrido-lög eiga rætur sínar að rekja til sjálfstæðisbaráttunnar á 19. öld og byltingarinnar síðar meir. Corridos eru formföst ljóð sem eiga sér rætur í munnlegri hefð. Ólæsi var landlægt í Mexíkó fyrir byltinguna og lögin voru leið til að dreifa fréttum og fregnum og segja sögurnar. Mörg corrido-lög byrja á setningunni „Senores, pongan cuidado” eða „Dömur mínar og herrar, ljáið mér eyra.” Síðan endar lagið oft á orðunum “así termina el corrido” - „svona endar sagan.” Fréttum er lokið.

Þegar Chalino losnaði úr fangelsi bókaði hann tíma í hljóðveri. Hann hafði ráðið mann til að syngja ljóðin sín af því að hann taldi sig ekki nógu góðan söngvara en maðurinn mætti ekki og Chalino ákvað að slá til að syngja sjálfur. Og örlögin voru ráðin.

Um 1990 var Chalino farinn að selja kassetturnar sínar beint upp úr bílskottinu og á flóamörkuðum víðs vegar um Los Angeles og varð stöðugt vinsælli, ekki síst meðal Mexíkóa í Kaliforníu. Tónlist Chalino var ný tegund af corrido-lögum, corridos prohibidos, ólöglegir corrido-söngvar sem fjalla oftar en ekki um eiturlyfjasmyglara, narcotraficantes og útlagana, valientes.

Chalino er þekktur fyrir hinn hráa Sínalóa-hreim sinn og notar gjarnan alls konar slangur í textagerðinni. Og þetta hitti í mark. Los Nortenos, Mexíkóarnir í norðrinu hentu FUBU-skopparafötunum sínum og keyptu í staðinn Stetson-leðurstígvél og kúrekaföt eins og Chalino.

Á þessum tíma var gangsta-rapp það heitasta í tónlistarsenu Bandaríkjanna og er Chalino oft borinn saman við Tupac, sem er líka algjör goðsögn og þjóðlagahetja þar vestra en tónlist þeirra á þó lítið sameiginlegt.

Corridos, mexíkósk sveitatónlist undir polka-áhrifum, var fyrst og fremst tónlist fyrir eldra fólk í Mexíkó þangað til Chalino mætti á svæðið og gerði corrido að einhverju meira spennandi, einhverju nýju og einhverju hættulegu. Þegar Chalino var spurður um tónlistina sína og söngva sagði hann: „Ég syng ekki, ég gelti.” En hættan var aldrei langt undan og Chalino virtist alla tíð vera feigur maður. 

Árið 1992 var hann fenginn til að spila á næturklúbbi í Coachella í Kaliforníu, þar sem stappað var út úr dyrum. Á miðjum tónleikum hoppaði maður í annarlegu ástandi upp á svið, 34 ára atvinnulaus vélvirki að nafni Eduardo Gallegos, og skaut á Chalino með skammbyssu. Chalino dró út eigin skammbyssu og skotbardagi á hlaupum hófst. Bardaginn stóð skamma stund en tíu manns voru skotnir, þar af einn sem lést. Chalino særðist illa en lifði þó árasina af, sem og harmónikkuleikarinn Nacho Hernandez. Gallegos lifði það af að vera skotinn í gegnum munninn með eigin skammbyssu og var síðan skellt í steininn.

Rétt eins og blóðsúthellingar í heimi gangsta-rappsins auka oft á vinsældir tónlistarinnar, þá sló Chalino rækilega í gegn við þennan hræðilega atburð. Hann varð útlaginn meðal útlaganna.

Chalino á þó að hafa áttað sig á því þarna að hann væri kominn alltof djúpt inn í atburðarás sem hann hafði enga stjórn á. Stefnan sem hann bjó til, textarnir á bak við ólöglegu corrido-söngvana, prohibidos corridos, eða narcocorridos, voru oft óheft túlkun á raunverulegum atburðum. Ef Chalino lofsöng mann sem hafði verið myrtur, þá niðurlægði hann morðingjana í textunum. Chalino hlaut líka að eiga marga óvini beggja vegna landamæranna eftir þá blóðugu atburði sem við lýstum hér áður. Hann vissi að hann væri feigur og passaði að selja öll réttindin að tónlist sinni fyrir upphæð sem honum þótti líklega himinhá. Hann keypti hús handa fjölskyldu sinni fyrir peningana, en þegar á heildina er litið er þetta glæpsamlega lág upphæð fyrir réttindin að svona ofurvinsælli tónlist.

Fjórum mánuðum eftir atburðina í Coachella, fékk Chalino boð um að snúa aftur til Sínalóa og spila á tónleikum í heimahögum í borginni Culiacán. Þetta átti eftir að verða síðasta kvöldið í lífi Chalino Sanchez.

Til er frægt myndband af Chalino að troða upp á þessum síðustu tónleikum sínum í Sínalóa. Einhver í salnum réttir Chalino lítinn miða, sem hann les ákaft á meðan tónlistin dunar. Það er eins og allt blóð renni úr andlitinu á honum og skelfingarsvipur kemur yfir hann. Hann heldur síðan áfram að syngja eins og atvinnumaður en sagan segir að á miðanum hafi verið morðhótun. Eftir tónleikana var bíll Chalino stoppaður af hópi manna sem sögðust vera lögreglumenn. Þeir báðu Chalino og bróður hans að fylgja sér en bræðurnir náðu að sannfæra mennina að bróðir Chalinos væri bara tónleikagestur sem þekkti hann ekki einu sinni. Chalino fylgdi mönnunum og lík hans fannst aðeins nokkrum klukkutímum seinna í skurði nálægt borginni. Hann hafði verið tekinn af lífi.

Eftir dauða Chalinos jókust vinsældir hans. Hann hafði eignast son árið 1984, Adan Chalino Sanchez, sem varð sjálfur frægur söngvari þegar hann var aðeins 10 ára. Adan lést í bílslysi eftir tónleika í Mexíkó árið 2004 og fjöldi samsæriskenninga er á kreiki um að hann hafi verið ráðinn af dögum eins og faðir hans. Hins vegar er það ólíklegt, þar sem glæpagengin í kringum kókaíniðnað Suður- og Mið-Ameríku myrða vanalega fólk og senda þannig skilaboð á almannafæri. Þeir fara sjaldnast huldu höfði. Eiturlyfjastríðið er eiginlega verra en önnur stríð því að í hernaði gilda vanalega einhverjar reglur.

Narcocorridos, tónlistin sem Chalino lagði grunninn að, er í dag bönnuð í útvarpinu og sjónvarpi í Mexikó, þar sem morðtíðnin hækkar með hverju ári, sem stöðvar auðvitað ekki vinsældirnar. En í Mexikó og víðar er Chalino Sanchez eins konar hetja verkamannsins og er ekki hægt að ganga niður götu í Los Angeles án þess að heyra þessa rámu rödd. Así termina el corrido - og svona endar sagan í dag.