Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

22 milljarðar í fasteignir á tveimur árum

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Íslendingar hafa flutt nærri 22 milljarða króna úr séreignasparnaði sínum yfir í fasteignir undanfarin tvö ár. Heimildir til að taka út séreignasparnað verða framlengdar á næstu mánuðum, segir fjármálaráðherra.

Fyrir utan að nýta áunninn séreignarsparnað við starfslok hefur fólk nokkrar aðrar leiðir til að ráðstafa honum. Ein er sú að taka hann einfaldlega út til frjálsrar ráðstöfunar, en þá er tekinn af því fullur skattur. Heimild til þess rann út í janúar en fjármálaráðherra hefur þegar lagt fram frumvarp á þingi um að framlengja heimildina til áramóta og verður hámarksúttekt 12 milljónir króna. Einnig eru leiðir til að nýta hann skattfrjálst.

Annars vegar geta þeir sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign, eða hafa ekki átt fasteign í fimm ár, nýtt sinn séreignarsparnað í útborgun til fasteignakaupa. Hins vegar er hægt að nýta séreignasparnaðinn til að greiða niður höfuðstól fasteignalána sinna. Þannig verður eignamyndun hraðari og lánið borgast hraðar upp.

24 þúsund millifærslur í mars

Öll þessi úrræði hafa verið afar vinsæl og frá upphafi, það er frá árinu 2014,  hafa tæplega 59 þúsund einstaklingar nýtt sér þau, hvort heldur er til útgreiðslu eða ráðstöfunar inn á lán. Úrræðið hefur margoft verið framlengt, síðast fyrir tveimur árum.

 Þetta eru margir að nýta sér því frá því úrræðið var síðast endurnýjað, í júlí 2019, hafa nærri 22 milljarðar flust frá séreignarsparnaði landsmanna yfir í fasteignir. Á sama tíma hafa rúmlega 1.600 manns tekið út séreignarsparnað og nýtt til kaupa á fasteignum og í marsmánuði einum fóru nærri 24 þúsund millifærslur inn á höfuðstól lána.

Vinna hafin við framlengingu

Heimildin til að nota séreignasparnað í fyrstu íbúðakaup er varanleg en heimild til að borga inn á höfuðstól lána rennur út í júní. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra segir að nú þegar sé farin í gang vinna við að framlengja heimildina enda eftirspurnin mikil. „Við þurfum kannski aðeins að huga að í sambandi við framlenginguna er meðal annars staðan á húsnæðismarkaði. En ég er jákvæður, eins og ég hef áður tjáð mig um, að koma með tímabundna framlengingu.“

Magnús Geir Eyjólfsson