Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Segir ávinninginn ekki alltaf trompa áhættuna

10.04.2021 - 19:13
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon
Sóttvarnalæknir hefur ákveðið að konur undir 55 ára fái ekki bóluefni AstraZeneca vegna hættu á blóðtappamyndun. Rannsóknir benda til þess að alvarlegar aukaverkanir kunni að vera algengari í Noregi en annars staðar. 

 

Virðist algengara meðal kvenna

Í gær voru birtar tvær nýjar vísindagreinar í tímaritinu The New England Journal of Medicine þar sem fjallað er um sjúklinga sem fengu sjaldgæfa blóðtappa eftir fyrri sprautuna af bóluefni AstraZeneca, annars vegar í Þýskalandi og Austurríki og hins vegar í Noregi. Tapparnir virðast tengjast aukinni virkni ónæmiskerfisins. „Þetta er vandamál sem er þekkt í tengslum við gjöf annarra lyfja, mjög fágætt. Það er ekki vitað nákvæmlega hvernig bóluefnið virðist hrinda þessari atburðarás af stað en kynjahlutföllin í þessum rannsóknum studdu það sem áður hefur verið sagt að þetta er algengara í konum en körlum,“ segir Magnús Gottfreðsson, smitsjúkdómalæknir og prófessor. 

Þetta kann að skýrast af því að margir heilbrigðisstarfsmenn hafa fengið efnið og þar eru konur í meirihluta, þær eiga þó líka almennt frekar á hættu að fá blóðtappa en karlar 

Mikilvægt að leita læknis ef einkenna verði vart

Blóðtapparnir komu fram dögum eða vikum eftir bólusetningu, sjúklingar fengu höfuðverk, kviðverki og bakverki, sjóntruflanir og húðblæðingar. Magnús segir mikilvægt að fólk leiti til læknis verði slíkra einkenna vart. Magnús segir að í nýju rannsóknunum sé veikindum þeirra sem fengu blóðtappana lýst, til dæmis í hvaða röð einkenni komu fram. Upplýsingarnar geri heilbrigðisstarfsfólki kleift að vera betur á varðbergi enda mikilvægt að heilbrigðiskerfið geti brugðist markvisst og fumlaust við, komi þessar sjaldfgæfu aukaverkanir upp hér. Blóðtapparnir koma til dæmis stundum fram á stöðum sem ekki eru dæmigerðir. 

Algengi í Noregi gæti tengst erfðum

Í heild hafa 25 milljónir manna fengið bóluefni Astra Zeneca. Lyfjastofnun Evrópu telurað einn af hverjum 300.000 fái þessa sjaldgæfu gerð af blóðtappa. Það vekur athygli Magnúsar að í Noregi virðist  það eiga við um einn af hverjum 26.000. Hann segir alls ekki hægt að útiloka að þetta tengist einhverjum erfðaþáttum. Það verði þó að horfa til þess það eru fá tilvik á bak við tíðnitölurnar.

Norsk heilbrigðisyfirvöld eru ekki farin að bólusetja aftur með bóluefni AstraZeneca og óljóst hvort efnið verður notað þar yfirleitt. „Ég skil það ágætlega í ljósi þess að tíðnin virðist vera heldur hærri þar,“ segir Magnús. 

Þrír þeirra fimm sem fengu blóðtappann í Noregi létust, hér er eitt andlát til rannsóknar eftir bólusetningu með AstraZeneca, en ójlóst hvort orsakatengsl eru til staðar. 

Skilgreindi hópa sem fá ekki veiruferju-efni

Sóttvarnalæknir tilkynnti í gær, eftir að hafa fengið álit sérfræðinga í blóðstorkuvandamálum, að konur undir 55 ára aldri skyldu hvorki fá AstraZeneca-bóluefnið né Janssen sem framleitt er með sömu tækni, veiruferjutækni. Sama gildir um fólk sem hefur fengið blóðtappa í bláæð eða er með sjúkdóma sem geta aukið mikið hættu á slíkum töppum. Samkvæmt upplýsingum frá landlæknisembættinu eru þó aldursviðmiðin óbreytt, einungis fólk yfir 70 fær AstraZeneca hér en hugsanlegt er að aldursmörkin verði færð neðar, mjög misjafnt er eftir þjóðum hvort þau eru dregin við sjötugt, fimmtugt eða þrítugt. 

Ávinningur heildar ekki alltaf áhættunnar virði

Oft er ávinningur heildarinnar nefndur sem rök fyrir því að fólk þiggi bólusetningu. Magnús segir þetta síður eiga við ef lítið er um smit í samfélaginu og faraldur ekki útbreiddur. „Þá má færa mjög sterk rök fyrir því að bíða með notkun bóluefna sem hafa þessa áhættu, jafnvel þó hún sé mjög lítil.“