Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Lokað fyrir aðgengi að gosstöðvunum klukkan níu í kvöld

Mynd með færslu
 Mynd: Reynir Freyr Pétursson
Lokað verður fyrir aðgengi almennings að gosstöðvunum klukkan níu í kvöld og búist við að rýmingu verði lokið um miðnætti. Opnað verður að nýju um hádegi á morgun. 

Í dag verða gosstöðvarnar í Geldingadölum vaktaðar af lögreglu og björgunarsveitum til miðnættis. Lokað verður fyrir aðgengi að svæðinu klukkan níu í kvöld en rýming hefst klukkan ellefu. 

Ætlunin er að rýmingu verði lokið fyrir miðnætti. Aftur verður opnað á hádegi á morgun og lögreglan á Suðurnesjum áréttar að þau sem ætli sér inn á svæðið fyrir þann tíma geri það á eigin ábyrgð. 

Samkvæmt upplýsingum Magnúsar Geirs Eyjólfssonar fréttamanns sem er staddur við gosstöðvarnar er heldur fámennt þar eða um hundrað manns. 

Gosstöðvarnar eru hættulegar og þá ekki síst vegna þess að möguleiki er á að loftgæði skerðist. Af þeim sökum er ekki ætlast til að fólk fari þangað með lítil börn og hunda sem eru útsettari fyrir mengun vegna gass nærri jörðu. 

Loftmengunar frá gosstöðvunum varð vart á höfuðborgarsvæðinu í dag sem gat valdið óþægindum þeim sem viðkvæm eru fyrir.

Á morgun er búist við að mengun berist fyrst yfir Vatnsleysuströnd, en seinnipartinn yfir svæðið frá Vogum og vestur að Höfnum. Annað kvöld er búist við að mengun berist í átt til Grindavíkur.

Ekki stendur til að sérfræðingar Veðurstofu Íslands geri sér ferð að gosstöðvunum í dag eða á morgun að sögn Salóme Jórunnar Bernharðsdóttur náttúruvársérfræðings.

Þó verði tekin ákvörðun um annað gerist eitthvað það við gosstöðvarnar sem kallar á aðkomu vísindafólks.