Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Kim óttast mikla hungursneyð

10.04.2021 - 03:37
epa09119624 A photo released by the official North Korean Central News Agency (KCNA) shows North Korean supreme leader Kim Jong-un (C) presiding over the opening of the 6th Conference of Cell Secretaries of the Workers' Party of Korea (WPK) in Pyongyang, North Korea, 06 April 2021 (issued 07 April 2021). The conference was initiated amid the great attention and expectation of all Party members and people when they go all out in implementing new strategic line and struggle policy of the socialist construction set forth at the 8th Congress of the WPK and the 2nd Plenary Meeting of the 8th Party Central Committee.  EPA-EFE/KCNA   EDITORIAL USE ONLY
 Mynd: EPA-EFE - KCNA
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, sendi þau skilaboð til þjóðar sinnar að hún verði að búa sig undir erfiða tíma. Fréttastofa BBC segir hann hafa líkt stöðunni nú við hungursneyðina á tíunda áratug síðustu aldar. Talið er að hundruð þúsunda hafi þá dáið úr hungri.

Alþjóðleg mannréttindasamtök hafa varað við miklum matarskorti í Norður-Kóreu og óstöðugum efnahag landsins. Ríkið hefur lokað landamærum sínum alfarið vegna kóronuveirufaraldursins og viðskipti Norður-Kóreu við Kína eru nánast engin um þessar mundir að sögn BBC. Kína hefur undanfarin ár verið efnahagsleg líflína Norður-Kóreu. Tvær öflugar lægðir lögðu stóran hluta uppskeru landsins í rúst síðasta sumar, og ofan á allt er Norður-Kórea beitt hörðum alþjóðlegum viðskiptaþvingunum vegna kjarnorkutilrauna sinna.

Kim bað stjórn sína um að búa sig undir annan, og enn harðari „erfiðan mars" til þess að koma fólki í gegnum komandi tíð. Norður-Kórea kallar tímabilið eftir fall Sovétríkjanna „erfiða mars." Sovétríkin veittu Norður-Kóreu mikla efnahagslega aðstoð, og við fall þeirra varð gríðarleg hungursneyð í landinu sem sögð er hafa leitt allt að þrjár milljónir manna til dauða. 

Merki sáust fyrir nokkrum mánuðum

BBC segir að nokkrir mánuðir séu síðan fyrstu merki þess að verulegur vandi steðjaði að Norður-Kóreu. Fyrstu fregnir bárust frá bæjum við landamærin að Kína. Lina Yoon, starfsmaður Mannréttindavaktarinnar, skrifaði í nýlega skýrslu að hún hafi heyrt af því að nánast enginn matur sé að fara yfir landamærin frá Kína. Sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi í Norður-Kóreu, Tomas Ojea Quintana, varaði við alvarlegum fæðuskorti í síðasta mánuði. Þá þegar hafði hann frétt af fólki sem hafði dáið úr hungri. Eins hafði börnum og eldra fólki sem betla fyrir mat fjölgað, þar sem fjölskyldur þeirra geta ekki séð fyrir þeim.

Norður-kóresk stjórnvöld hafa hingað til neitað að taka við utanaðkomandi aðstoð. Nánast allir erindrekar og hjálparstarfsmenn, þar á meðal starfsmenn Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, hafa yfirgefið landið. Ekkert er því vitað um hvort, og þá hversu mikil, aðstoð berst til landsins. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV