Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Hræðilegt“ að kaupa sína fyrstu íbúð í dag

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Kona sem nýlega keypti sína fyrstu íbúð segir hraðann á fasteignamarkaði stressandi og rifist um eignirnar. Skoðurnarmaður fasteigna segir að sölupressan sé slík að fólk hafi ekki tíma til að bíða eftir ástandsskýrslu. Formaður Neytendasamtakanna segir kaupendur í þröngri stöðu og vill sjá breytta umgjörð um fasteignaviðskipti.

„Mjög mikið stress og rifist um eignirnar“

Lágir vextir hafa auðveldað fólki að kaupa sína fyrstu eign eða stækka við sig. Á sama tíma er framboð á eignum í algeru lágmarki og eignir seljast á mettíma. Hvernig er að kaupa á markaðnum eins og hann er núna? „ Það var bara hræðilegt sko, bara mjög mikið stress og rifist um eignirnar.“ segir Rakel Sif Friðriksdóttir sem keypti sína fyrstu íbúð á dögunum. „Við fórum á opið hús og ákváðum klukkutíma seinna að gera tilboð, ég hefði alveg viljað fá að hugsa þetta í einn tvo daga áður en ég myndi kaupa hana,“ segir hún. 

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Nýja íbúðin, þau rifu upprunalegar innréttingar og ætla að gera íbúðina að sinni .

Íbúðafæð á höfuðborgarsvæðinu

Það eru sérstaklega fáar íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu, innan við þúsund í heild og helmingi færri en í fyrra. Verðið á þeim sem eftir eru virðist fara hækkandi. Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir seljendamarkaðinn algeran „Kaupendur eru í mjög þröngri stöðu og maður hefur jafnvel heyrt um að fólk sé nánast að kaupa íbúðir óséðar. Þegar það er verið að tefla um svona mikil kaup, því þetta eru yfirleitt mestu kaup fólks á ævinni, þá er þetta mikið hættuspil á stundum.“

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Breki Karlsson

Ekki alltaf tími fyrir ástandsmat

Það er ekki mikil hefð fyrir því á Íslandi að gera tilboð með fyrirvara um ástandsskoðun en í dag hafa þau sem vilja það ekki alltaf tíma. „Fólk hefur verið að hafa samband við okkur og biðja okkur að gera skoðun á eftir eða morgun eða hinn og við höfum ekki komist í það. Það hefur ekki tíma, vegna sölupressu, til að klára ástandsmat,“ segir Reynir Kristinsson, skoðunarmaður fasteigna. Við slíka skoðun kemur kannski í ljós raki eða mygla og fólk hefur þá rétt á að falla frá kaupunum.

Vill tvo fasteignasala eða lögbundna ástandsskoðun

Neytendasamtökin myndu vilja sjá breytta umgjörð í kringum fasteignaviðskipti. „Það er náttúrulega sú leið að kannski skylda fólk til að ástandsskoða íbúðir áður en þær fara á sölu, svo er hin leiðin að það sé sérstakur aðili að gæta hagsmuna kaupenda,“ segir Breki. Slíkt kerfi er við lýði í Danmörku. Fasteignasali á auðvitað að gæta hagsmuna jafnt kaupenda og seljenda jafnt en Breki er ekki viss um að það gangi upp. „Hann hefur jafnframt hag af því að selja íbúðina á sem hæstu verði.“

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV