Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Eldgos er ógurlegt afl sem bera þarf virðingu fyrir

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Gosstöðvarnar í Geldingadölum verða vaktaðar frá hádegi í dag eins og til stóð þrátt fyrir að fjórða sprungan hafi opnast þar í nótt. Hraunið breiðir sífellt úr sér og því verður æ erfiðara fyrir lögreglu og björgunarsveitir að hafa yfirsýn.

Guðmundur Eyjólfsson varðstjóri í lögreglunni á Suðurnesjum og vettvangsstjóri við gosstöðvarnar segir björgunarsveitir vakta svæðið áfram.  

„Það er hættusvæði sem við viljum ekki að fólk fari inn á og síðan eru björgunarsveitir stöðugt að taka stöðuna þarna. Svæðið er opið, óbreytt frá því sem var í gær, ekki nema þetta hættusvæði.“ Guðmundur segir svæðið vera stórt og torvelt að hafa yfirsýn yfir það. 

Tölvuverður snjór sé á jörð og mikilvægt að vera vel búin ekki síst til fótanna. Í morgun segir hann að hafi verið um 20 til 30 bílar á bílastæðinu. Guðmundi finnst ekki ráðlegt að heimsækja gosstöðvarnar utan auglýsts tíma.

„Nei mér finnst það ekki. Þegar viðbragð er í lágmarki er ekki gott að vera á ferðinni.“ Guðmundur segir ekki búið að ákveða að svo stöddu hve lengi áfram verði vakt við gosstöðvarnar. 

Sprungan sem opnaðist í nótt er á því svæði sem afmarkað er sem hættusvæði, Salóme Jórunn Bernharðsdóttir er náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir fleiri sprungur geta opnast en eins geti farið svo að engin sprunga bætist við. 

„Við búumst ekki við að sprungur opnist utan þess svæðis en það verður kannski aðeins endurskoðað og dregið norðar í dag eða á morgun en með hliðsjón af austur og vesturhlíðum þessa svæðið þá er það nokkuð vel afmarkað.“ 

Það sé alltaf hætta á gasmengun við eldstöðvar enda komi gas upp úr gígunum. Salóme hvetur fólk til að kynna sér gasspána og veðurspá. Í hægum vindi geti safnast gas í lægðum og því brýnt að halda sig ofarlega.

Gasmælar séu við gönguleiðir og víðar auk þess sem björgunarsveitir séu mjög meðvitaðar um aðstæður og bregðist umsvifalaust við ef eitthvað bregður út af. „Helstu skilaboðin eru að fylgja tilmælum lögreglu og viðbragðsaðila.“

Upplýsingar sé að finna á vef Veðurstofunnar. Salóme hvetur fólk til að fara varlega og bera virðingu fyrir eldstöðvunum og náttúrunni. 

„Þetta lítur kannski sakleysislega út en þetta eru ógurleg öfl og maður verður að bera virðingu fyrir þeim.“