Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ekkert innanlandssmit í Færeyjum síðan í lok janúar

Mynd með færslu
 Mynd: Landsjúkrahúsið í Færeyjum
Ekkert innanlandssmit kórónuveiru hefur greinst í Færeyjum frá 25. janúar síðastliðnum. Tvær vikur eru síðan tilkynnt var um að ekkert virkt smit væri í eyjunum í annað skipti á árinu. Seinasta smitið greindist í ferðamanni um flugvöllinn í Vogum 12. mars samkvæmt upplýsingum þarlendra heilbrigðisyfirvalda.

Frá því í júní á síðasta ári er öllum þeim sem koma til Færeyja gert að fara í kórónuveirupróf og ráðlagt eindregið að halda sig í sóttkví uns neikvæð niðurstaða síðari skimunar berst.

Sóttkvíartíminn var sex dagar þar til í gær þegar ákveðið var að stytta hann í fjóra. Það er vegna þess að tíminn sem líður frá því að einkenna breska afbrigðisins verður vart var þar til einkenni koma í ljós er skemmri en annarra afbrigða veirunnar.

Ferðafólk sem hefur fengið síðari skammt bóluefnis að minnsta kosti átta dögum fyrir komu til eyjanna er nú undanþegið sóttkví en er hvatt til að fara í skimun fjórum dögum eftir komuna. Núgildandi reglum er ætlað að gilda til 30. júní næstkomandi.
 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV