Tyrkir fordæma ummæli Draghi um Erdogan

09.04.2021 - 06:17
epa09118486 A handout photo made available by Turkish President Press Office shows, Turkish President Recep Tayyip Erdogan (C) welcoming EU Council President Charles Michel (L) and President of EU Commission Ursula Von der Leyen (R) before their meeting at the Presidential Place in Ankara, Turkey, 06 April 2021.  EPA-EFE/PRESIDENTAL PRESS OFFICE HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - HO
Ítalski sendiherrann í Tyrklandi var kallaður á teppið í Ankara vegna ummæla Mario Draghi, forsætisráðherra Ítalíu, um tyrkneska forsetann. Draghi kallaði Recep Tayyip Erdogan einræðisherra vegna fundarins með forsetum Evrópusambandsins þar sem Ursula von der Leyen var skilin útundan. Draghi sagði Tyrki hafa niðurlægt von der Leyen, sem er forseti framkvæmdastjórnar ESB.

Stólaleysið á forsetaskrifstofunni í Tyrklandi virðist orðið að stórfelldu deilumáli. Aðeins tveimur stólum var stillt upp fyrir forsetana þrjá, Erdogan, von der Leyen og Charles Michel, forseta leiðtogaráðs ESB. Þeir Michel og Erdogan settust í stólana, en von der Leyen stóð forviða eftir. Talsmaður framkvæmdastjórnar ESB segir Tyrki hafa borið ábyrgð á fundinum og uppsetningu hans, en tyrkneska utanríkisráðuneytið segist hafa fylgt fyrirmælum Evrópusambandsins. 

Tyrkneski utanríkisráðherrann Mevlut Cavusoglu skrifaði á Twitter í gær að hann fordæmi popúlísk ummæli ítalska forsætisráðherrans. Hann sagði ummæli hans jafnframt ljót og ósanngjörn.

Omer Celik, talsmaður stjórnarflokksins AK í Tyrklandi, kvaðst harma ummæli Draghis því þau endurspegli ekki samskipti Tyrklands og Ítalíu.