Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Taldi engan vafa leika á lagaheimild sóttkvíarhótels

Sóttkvíarhótel
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Páll Þórhallsson, lögfræðingur í forsætisráðuneytinu, sagði í minnisblaði sínu til forsætisráðherra að hann teldi engan vafa leika á því að lagaheimild væri til staðar um að ferðamenn skyldu vera í sóttkví í húsnæði þar sem hægt væri að hafa með þeim eftirlit og uppfyllti sóttvarnakröfur. Hann benti þó á að skilgreining sóttvarnahúss væri fullþröng því þar væri ekki gert ráð fyrir að sóttvarnahús væri notað fyrir alla ferðamenn sem kæmu til landsins frá tilteknum svæðum.

Minnisblaðið er hluti af gögnum sem fréttastofa óskaði eftir í tengslum við umdeilda reglugerð sem tók gildi 1. apríl en hefur nú verið felld úr gildi.  

Minnisblaðið var sent forsætisráðuneytinu 29. mars eða daginn áður en reglugerðin leit dagsins ljós.  Þar var kveðið á um að allir farþegar frá skilgreindum áhættusvæðum ættu að vera í sóttkví á sóttkvíarhóteli. 

Sú ákvörðun mæltist illa fyrir og á endanum var það niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur að ekki væri hægt að skylda fólk til að vera á sóttkvíarhótelinu ef það gæti verið í sóttkví heima hjá sér. Ný reglugerð hefur nú verið sett þar sem skerpt er á skilyrðum um heimasóttkví og viðurlög hert gagnvart þeim sem rjúfa sóttkví.

Páll segir í minnisblaði sínu til forsætisráðherra að það leiki enginn vafi á því að lagaheimildin fyrir sóttkvíarhótelinu sé til staðar.  Hann nefnir samt að skilgreining sóttvarnarhúss sé fullþröng því þar sé ekki gert ráð fyrir þeim möguleika að sóttvarnahús sé notað fyrir alla ferðamenn sem koma til landsins frá tilteknum svæðum þótt hann telji að það breyti niðurstöðunni um lögmæti sóttkvíarhótelsins.

Í minnisblaðinu bendir Páll jafnframt á að hægt sé að færa rök fyrir því að mjög mikið sé í húfi að þétta enn frekar öryggisnetið á landamærunum til að afstýra nýrri bylgju eða kæfa hana í fæðingu.  Lögmætur tilgangur sé því að vernda lýðheilsu enda valdi ný afbrigði kórónuveirunnar áhyggjum; þau sé meira smitandi og valdi alvarlegri veikindum.

Páll segir í minnisblaðinu að meðalhófið geti staðist ef yfirvöld meti það svo að of mikil áhætta felist í að treysta einvörðungu á heimasóttkví.  Sú ákvörðun byggi þá á þeirri reynslu sem fengist hefur á síðustu misserum. Dæmin sýni að helsta ástæða þess að hópsýkingar og nýjar smitbylgjur fari af stað innanlands sé vegna þess að fólk í heimasóttkví fylgi ekki settum reglum.

Páll nefnir það engu að síður að ef stjórnvöld vilji koma til móts við þá sem eiga þess kost að einangra sig í húsnæði á eigin vegum mætti hugsa sér fyrirkomulag þar sem viðkomandi gæti sótt um undanþágu fyrirfram frá dvöl í sóttvarnahúsi. „Slíkt myndi samt kalla á mjög vandasamt og viðkvæmt mat annað hvort á húsnæði sem fólk hyggst dvelja í eða trúverðugleika einstaklinga.“

Þegar reglugerðin var birt daginn eftir kom fram að sóttvarnalæknir gæti veitt undanþágu frá heimasóttkví eða sóttkví í sóttvarnahúsi að öllu leyti eða hluta til „vegna mjög sérstakra aðstæðna enda sé tryggt að það komi ekki niður á smitvörnum.“ Í minnisblaði heilbrigðisráðherra til ríkisstjórnarinnar, sem var lagt fram á fundi 30. mars, kom fram að þetta væri mjög þröng undanþága og hún ætti ekki við nema í einstaka tilfellum.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV