Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Súrefnisskortur var banamein Floyds

Mynd með færslu
 Mynd: AP
Lungnalæknirinn Martin Tobin sagði fyrir dómi í gær að súrefnisleysi hafi orðið George Floyd að bana. Tobin lýsti því hvernig súrefnisskorturinn olli heilaskemmdum og hjartsláttartruflunum, sem að lokum leiddu til þess að hjarta hans hætti að slá. 

Tobin sagði kviðdómnum að hann hafi horft á myndbandið af handtökunni á Floyd nokkur hundruð sinnum. Þar sést lögreglumaðurinn Derek Chauvin þrýsta hné sínu að hálsi Floyd í um níu mínútur. Á meðan biðst Floyd vægðar og kvartar ítrekað undan því að ná ekki andanum. Tobin sagði Floyd hafa átt erfitt með andardrátt vegna þess að andlit hans nam við götuna, handjárnaður fyrir aftan bak, á meðan Chauvin þrýsti á háls hans og aðrir lögreglumenn voru á baki hans. 

Ofskammtur eða undirliggjandi sjúkdómar útilokaðir

Verjandi Chauvins, Eric Nelson, vildi meina að mestur þungi Chauvins hafi verið á öxl Floyds að stórum hluta. Tobin var því ósammála og sagði Chauvin hafa haldið þrýstingi á hálsi Floyds eftir að hann hætti að anda. Vinstra hné Chauvins hafi verið á hálsi Floyds rúmlega 90 prósent tímans samkvæmt útreikningum Tobins. 

Tobin þvertók einnig fyrir að undirliggjandi sjúkdómar ásamt áhrifum ólöglegra lyfja á borð við amfetamín og fentanýl hafi valdið dauða hans. Tobin sagði að aðfarir Chauvins myndu einnig draga heilbrigðan mann til dauða. Hvað lyf varðar sagði Tobin að fentanýl ætti það til að veikja öndun, en öndun Floyds hafi virkað eðlileg áður en hann leið út af og lést. 

Lítið af fentanýli í blóði Floyds

Annar læknir, William Smock, bar einnig vitni í málinu í gær. Hann sérhæfir sig í réttarlæknisfræði. Hann segir myndefnið sýna að rödd Floyd hafi veikst eftir því sem hann fékk minna súrefni. Hann hafi beðið lögreglumennina um að fara af sér svo hann gæti andað, hefur AFP fréttastofan eftir Smock. Smock sagði það ekki merki um fentanýl í blóði, heldur einfaldlega mann sem vildi ná andanum. Eiturefnafræðingurinn Daniel Isenschmid sagði kviðdómi einnig að fremur lítið hafi verið af fentanýli í blóði Floyds. Það hafi verið nægilega mikið til þess að hægt væri að handtaka hann fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna, en langtum minna en það magn sem finnst í fólki sem deyr úr ofskammti.

Nokkrir lögreglumenn hafa borið vitni í máli Floyds. Þeir voru sammála um að Chauvin hafi beitt óþarflega mikilli hörku við handtökuna. Floyd var handtekinn vegna gruns um að hann hafi framvísað fölsuðum 20 dollara seðli í verslun.

Þetta var níundi dagur vitnisburða í réttarhöldunum gegn Chauvin. Þau halda áfram í dag. Chauvin neitar sök í málinu. Hann á yfir höfði sér allt að 40 ára fangelsi verði hann dæmdur fyrir alvarlegasta ákæruefnið, morð af annarri gráðu. Chauvin er 45 ára og vann sem lögreglumaður í Minneapolis í 19 ár. Hann var rekinn í fyrra eftir að myndbandið af handtökunni á Floyd var birt. Þrír aðrir lögreglumenn sem tóku þátt í handtökunni bíða réttarhalda síðar á árinu.