Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir nýju reglugerðina standast lög

Mynd: RÚV / RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er fullviss um að ný reglugerð um sóttkví standist lög. Hún sagði eftir ríkisstjórnarfund nú rétt fyrir hádegi að með nýju reglugerðinni séu settar strangari reglur um sóttkví, sektir hækkaðar og rík áhersla lögð á að fólk fylgi reglum.

Varðandi þá farþega sem voru skikkaðir í sóttkví í farsóttarhúsinu á grundvelli reglugerðar sem stóðst ekki lög, undirstrikar forsætisráðherra að stjórnvöld höfðu talið að reglugerðin væri lögleg, áður en dómur héraðsdóms lá fyrir. 

„Mér þykir það mjög leitt að þessi reglugerð hafi í raun og veru þar með verið úrskurðuð að hún fylgdi ekki lögum, mér þykir mjög leitt ef fólk hefur þurft að þola einhver leiðindi vegna þess en segi það líka að hún var sett í góðri trú og með þessi markmið að leiðarljósi. Ég hef heyrt í ýmsum og flestir sýna þessu mikinn skilning og maður er þakklátur fyrir það,“ segir Katrín Jakobsdóttir að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Viðtal Magnúsar Geirs Eyjólfssonar fréttamanns við Katrínu Jakobsdóttur má sjá hér að ofan.

Gera alltaf ráð fyrir að reglugerðir standist lög

Ný reglugerð um sóttvarnir og sóttkví tók  gildi á miðnætti. Héraðsdómur taldi ekki lagastoð fyrir fyrri reglugerð. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir  að alltaf sé gert ráð fyrir að reglugerðir standist þegar þær séu lagðar fram og þær skipti tugum frá því að faraldurinn brast á.

„Það er að sjálfsögðu mín skylda og það hefur ekki reynt á ágreining um það nema í þetta eina skipti,“ segir Svandís.

Hefur komið til tals að biðja þetta fólk sem lenti á sóttvarnahótelinu afsökunar?

„Þetta hefur sinn gang í gegnum dómstóla og við höfum okkar kerfi í réttarríkinu til að bregðast við,“ segir Svandís.

Viðtal Magnúsar við Svandísi Svavarsdóttur má sjá hér að neðan.

Mynd: RÚV / RÚV